Enski knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford er hæstánægður með að vera genginn í raðir Aston Villa að láni frá uppeldisfélagi sínu Manchester United.
Rashford hefur verið úti í kuldanum nánast allt frá því að Rúben Amorim tók við stjórnartaumunum hjá Man. United.
„Ég vil þakka Manchester United og Aston Villa fyrir að sjá til þess að þessi lánssamningur fór í gegn. Ég var svo lánsamur að nokkur félög höfðu áhuga á mér en það var auðvelt að velja Aston Villa.
Ég dáist að því hvernig Aston Villa hefur verið að spila á þessu tímabili og metnaði knattspyrnustjórans. Ég vil bara spila fótbolta og er spenntur að hefjast handa.
Ég óska öllum hjá Manchester United alls hins besta það sem eftir er af tímabilinu,“ skrifaði Rashford á Instagram-aðgangi sínum í gær.