Peningarnir streyma inn hjá Liverpool

Mohamed Salah skoraði bæði mörk Liverpool í sigrinum gegn Bournemouth …
Mohamed Salah skoraði bæði mörk Liverpool í sigrinum gegn Bournemouth um helgina. AFP/Glyn Kirk

Enska knattspyrnufélagið Liverpool er um 100 milljónum evra ríkara eftir góðan árangur liðsins í deildarkeppni Meistaradeildarinnar á tímabilinu.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Liverpool vann sjö af átta leikjum sínum í keppninni og hafnaði í efsta sæti deildarinnar með 21 stig.

Það eru enn þá rúmlega 56 milljónir evra eftir í pottinum, frá 16-liða úrslitunum og fram að úrslitaleiknum, og þá fær sigurvegari Meistaradeildarinnar einnig umtalsverða fjármuni.

Liverpool hefur einnig grætt vel á heimaleikjum sínum í keppninni, þar sem iðulega er uppselt á alla leiki félagsins, en félagið fær 3-4 milljónir punda í vasann fyrir hvern heimaleik.

Þrátt fyrir peningastreymið hefur Liverpool látið lítið fyrir sér fara á leikmannamarkaðnum, sumum stuðningsmönnum liðsins til mikillar mæðu, en félagið er með sex stiga forskot á toppi úrvalsdeildarinnar þegar tímabilið er rúmlega hálfnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert