Barcelona græðir á kaupum City

Nico González fagnar marki fyrir Porto.
Nico González fagnar marki fyrir Porto. AFP/Miguel Riopa

Barcelona fær góðan bónus í kjölfarið á kaupum Manchester City á spænska knattspyrnumanninum Nico González frá portúgalska félaginu Porto í gærkvöld.

Porto fær 60 milljónir evra fyrir Spánverjann, jafnvirði 8,7 milljarða íslenskra króna.

En þar sem hann er uppalinn hjá Barcelona og seldur þaðan til Porto með skilyrðum um hlut af framtíðarsölu renna nú 13 milljónir evra, eða tæpir tveir milljarðar króna, beint til Katalóníufélagsins.

Fyrst var talið að Porto þyrfti að greiða Barcelona 24 milljónir evra vegna sölunnar en portúgalska félagið upplýsti síðan að félögin hefðu samið að nýju um endursöluverðið.

González er 23 ára miðjumaður sem kom 11 ára gamall til Barcelona og var í tíu ár hjá félaginu, þar til hann var seldur til Porto sumarið 2023 fyrir 8,5 milljónir evra, eða rúmlega 1.200 milljónir króna.

Hann lék 27 leiki með aðalliði Barcelona í spænsku 1. deildinni og síðan 26 leiki með Valencia þar sem hann var í láni síðasta tímabilið. Með Porto hefur González leikið 42 leiki í efstu deild og skorað sjö mörk. 

Hann var í 21-árs landsliði Spánar sem fékk silfurverðlaun á EM árið 2023 en á ekki A-landsleiki að baki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert