Villa og City sóttu flesta leikmenn

Egypski framherjinn Omar Marmoush var dýrasti leikmaðurinn í þessum félagsskiptaglugga.
Egypski framherjinn Omar Marmoush var dýrasti leikmaðurinn í þessum félagsskiptaglugga. AFP/Oli Scarff

Aston Villa og  Manchester City voru þau félög í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu sem náðu sér í flesta leikmenn í félagaskiptaglugganum sem lokað var seint í gærkvöld.

Bæði félög bættu fimm leikmönnum í sinn hóp fyrir lokasprettinn á keppnistímabilinu og City eyddi langmestum fjármunum, eða um 180 milljónum punda af þeim samtals 373 milljónum sem félögin 20 í deildinni vörðu til leikmannakaupa frá 1. janúar til 3. febrúar.

Manchester City keypti fjóra dýrustu leikmennina en grannar þeirra í Manchester United áttu svo fimmta dýrasta leikmanninn, danska bakvörðinn Patrick Dorgu sem þeir keyptu fyrir 25 milljónir punda.

Aston Villa greiddi hins vegar aðeins 26 milljónir punda fyrir sína fimm leikmenn, enda komu þrír þeirra á lánssamningum.

Manchester City fékk eftirtalda leikmenn:

Framherjann Omar Marmoush frá Eintracht Frankfurt í Þýskalandi fyrir 59 milljónir punda.

Miðjumanninn Nico González frá Porto í Portúgal fyrir 50 milljónir punda.

Varnarmanninn Vitor Reis frá Palmeiras í Brasilíu fyrir tæpar 30 milljónir punda.

Varnarmanninn Abdukodir Khusanov frá Lens í Frakklandi fyrir um 34 milljónir punda.

Varnarmanninn Christian McFarlane frá systurfélagi sínu New York City í Bandaríkjunum fyrir um 7 milljónir punda.

Aston Villa fékk eftirtalda leikmenn:

Varnarmanninn Axel Disasi lánaðan frá Chelsea.

Kantmanninn Marco Asensio lánaðan frá París SG í Frakklandi.

Framherjann Marcus Rashford lánaðan frá Manchester United.

Bakvörðinn Andrés García frá Levante á Spáni fyrir 6 milljónir punda.

Framherjann Donyell Malen frá Dortmund í Þýskalandi fyrir 20 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert