Viðurkenna 13 mistök hjá VAR

Ekki hefði átt að dæma vítaspyrnu á Matthijs de Ligt …
Ekki hefði átt að dæma vítaspyrnu á Matthijs de Ligt í tapi Man. United fyrir West Ham, sem reyndist síðasti leikur stjórans Eriks ten Hag. AFP/Glyn Kirk

Nefnd á vegum ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla hefur tilkynnt að alls hafi dómarar í deildinni gert 13 mistök sem tengjast VAR-dómgæslu á yfirstandandi tímabili.

Að mati nefndarinnar, sem lítur á lykilatriði í leikjum, hefur VAR fjórum sinnum gripið ranglega inn í og níu sinnum láðst að grípa inn í þegar tilefni var til í fyrstu 23 umferðunum í deildinni.

VAR hefur alls gripið inn í 70 sinnum í samtals 239 leikjum í úrvalsdeildinni á tímabilinu, um það bil einu sinni á þriggja leikja fresti.

Í yfirlýsingu frá úrvalsdeildinni eru atvikin fjögur sem ranglega var gripið inn í útlistuð en atvikin níu þar sem VAR láðist að grípa inn í eru ekki gefin upp.

Atvikin fjögur þar sem komist var að rangri niðurstöðu eftir inngrip VAR:

1. Þegar vítaspyrna var dæmd á Matthijs de Ligt fyrir brot á Danny Ings í 2:1-tapi Manchester United fyrir West Ham United fyrir brot á Danny Ings þann 27. október. Ekki hefði átt að dæma vítaspyrnu.

2. Þegar mark sem Nikola Milenkovic skoraði fyrir Nottingham Forest var dæmt af í 3:2-sigri á Southampton þann 19. janúar. Chris Wood var talinn hafa áhrif á leikinn í rangstöðu en er það mat nefndarinnar að svo hafi ekki verið.

3. Christian Nörgaard fékk beint rautt spjald fyrir brot á Jordan Pickford í markalausu jafntefli Brentford gegn Everton 23. nóvember eftir að VAR ráðlagði dómara að fara í skjáinn. Brentford vann áfrýjun og Nörgaard slapp við þriggja leikja bann og var nefndin sammála því að um ranga ákvörðun hafi verið að ræða.

4. Dango Ouattara taldi sig vera að skora sigurmark fyrir Bournemouth þegar liðið gerði jafntefli við Newcastle United, 1:1, þann 25. ágúst. VAR sagði Ouattara hafa handleikið knöttinn, sendi dómarann ekki í skjáinn en dæmdi hann markið af. Ekki þótti sannað að Ouattara hafi handleikið knöttinn og því var um ranga ákvörðun að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert