Liverpool mætir Newcastle í úrslitaleik enska deildabikarsins í knattspyrnu eftir sigur á Tottenham, 4:0, í seinni leik undanúrslitanna á Anfield í kvöld. Tottenham vann fyrri leik liðanna á heimavelli, 1:0, og vann Liverpool því einvígið samanlagt 4:1.
Liverpool er því á leið í úrslitaleik deildabikarsins annað árið í röð og í þriðja sinn á fjórum árum. Liðið mætir Newcastle á Wembley-vellinum í Lundúnum sunnudaginn 16. mars.
Heimamenn byrjuðu leikinn betur og voru betra liðið í fyrri hálfleiknum. Boltinn var stærstan hluta hálfleiksins í fótum rauðklæddra þrátt fyrir að færin hafi verið af skornum skammti framan af leik.
Úrúgvæinn Darwin Núnez fékk ágætis skallafæri eftir tæplega hálftíma leik en þá hafði Hollendingurinn Cody Gakpo gert mjög vel á vinstri vængnum.
Fimm mínútum síðar var það svo Gakpo sem kom heimamönnum yfir. Yves Bissouma missti boltann þá á miðsvæðinu og Ryan Gravenberch kom boltanum út til hægri á Mohamed Salah. Hann átti flotta utanfótarsendingu sem fór í gegnum mannmergð inni á teignum, alla leið á fjærsvæðið þar sem Gakpo beið og smellti boltanum í nærhornið.
Eftir markið voru heimamenn áfram líklegri aðilinn til að bæta við marki en það gekk ekki og staðan í hálfleik því 1:0.
Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn svo af miklum krafti. Liðið fékk tvær hornspyrnur í röð og eftir þá síðari átti Dominik Szoboszlai skalla af nærsvæðinu sem Antonin Kinsky varði vel í marki Tottenham.
Skömmu síðar kom svo há sending í átt að Mo Salah. Hann tók boltann glæsilega niður og renndi honum í hlaupaleiðina hjá Núnez sem komst í boltann á undan Kinsky, áður en sá síðarnefndi tók framherjann niður innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Á punktinn steig Salah og skoraði hann af gríðarlegu öryggi uppi í vinstra hornið.
Yfirburðir heimamanna minnkuðu ekkert eftir annað markið og virtust gestirnir eiga fá svör við ákefð Liverpool-manna. Misheppnaðar sendingar og almennur klaufagangur urðu þess valdandi að heimamenn komust í hverja sóknina á fætur annarri og hefðu hæglega getað bætt við mörkum strax í kjölfar vítaspyrnunnar.
Á 63. mínútu átti Gakpo skot í stöngina úr fínu færi vinstra megin í teignum eftir að heimamenn höfðu fært boltann frá hægri til vinstri og galopnað vörn Tottenham í leiðinni. Rúmum 10 mínútum síðar átti svo annar Hollendingur, Ryan Gravenberch, skot í stöngina. Hann fékk þá allan tímann í heiminum til að stilla boltanum upp rétt fyrir utan D-bogann en því miður fyrir hann fór skotið í utanverða stöngina og framhjá.
Þegar korter var eftir komst Liverpool svo í 3:0. Varamaðurinn Alexis Mac Allister fékk þá að vaða með boltann óáreittur upp miðjan völlinn áður en hann renndi boltanum á Conor Bradley. Hann setti boltann í fyrstu snertingu á Dominik Szoboszlai í góðu hlaupi inn á teiginn og Ungverjinn kláraði virkilega vel.
Þremur mínútum eftir markið fékk Tottenham svo sitt besta færi. Son Heung-min gerði þá mjög vel vinstra megin í teignum, komst framhjá Ibrahima Konaté og hamraði boltanum svo í þverslánna úr þröngu færi.
Á 80. mínútu var það svo Virgil van Dijk sem gerði endanlega út um einvígið. Alexis Mac Allister átti þá hornspyrnu frá vinstri sem van Dijk skallaði í netið af stuttu færi og skoraði þar með fjórða og síðasta mark Liverpool.