Forest þurfti vítakeppni gegn C-deildarliði

Pat Jones og Morgan Gibbs-White í harðri baráttu í leiknum …
Pat Jones og Morgan Gibbs-White í harðri baráttu í leiknum í kvöld. AFP/Adrian Dennis

Nottingham Forest tryggði sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla með því að leggja C-deildar lið Exeter City eftir vítaspyrnukeppni í 32-liða úrslitum.

Forest er í harðri toppbaráttu í ensku úrvalsdeildinni, er þar í þriðja sæti, á meðan Exeter er í vandræðum í C-deildinni, er þar í 18. sæti, fimm stigum fyrir ofan fallsæti.

Forest mætir Ipswich Town á heimavelli í 16-liða úrslitum.

Exeter komst óvænt yfir eftir aðeins fimm mínútna leik þegar norðurírski landsliðsmaðurinn Josh Magennis skoraði.

Ramón Sosa jafnaði metin fyrir Forest eftir stundarfjórðungs leik og Taiwo Awoniyi kom gestunum svo yfir á 37. mínútu.

Snemma í síðari hálfleik jafnaði Magennis metin fyrir Exeter með sínu öðru marki og var staðan 2:2 að loknum venjulegum leiktíma.

Forest tókst ekki að knýja fram sigurmark í framlengingunni þrátt fyrir harða atlögu og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til þess að knýja fram úrslit.

Í vítaspyrnukeppninni skoraði Forest úr öllum fjórum vítaspyrnum sínum á meðan Exeter klúðraði tveimur af sínum. Lokatölur í vítaspyrnukeppninni því 4:2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert