Barn­laus pör og ein­búar spila mest af tölvu­leikjum

Samkvæmt Gallup könnuninni segjast 95% barnlausra para, 18-45 ára, spila …
Samkvæmt Gallup könnuninni segjast 95% barnlausra para, 18-45 ára, spila tölvuleiki og þau sem búa ein eru litlu færri. Ljósmynd/Colourbox

Yfirgnæfandi meirihluti barnlausra para á aldrinum 18-45 ára, spilar tölvuleiki ef marka má nýja skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Rafíþróttasamband Íslands og var ætlað að mæla tölvuleikjaspilun hjá fullorðnum og börnum.

Ef marka má könnunina spila 62,5% þjóðarinnar tölvuleiki og athygli vekur að samkvæmt henni spila fleiri konur en karlar tölvuleiki en 65% kvenna svöruðu spurningu þess efnis játandi á móti 60% karla. 

Könnunin gefur ýmsar aðrar áhugaverðar vísbendingar um rafíþróttamenningu þjóðarinnar og ýmislegt í niðurstöðum hennar hlýtur að mega teljast nokkuð óvænt en eins og ef til vill mátti búast við er fjöldi spilara mestur, 89%,  meðal ungra karla á aldrinum 18-30 ára. Konur á sama aldri eru þó litlu færri eða 87%.

Þegar niðurstöður könnunarinnar eru skoðaðar frekar eftir lífsskeiðshópum og stöðu svarenda í lífinu almennt kemur í ljós að yfirgnæfandi meirihluti, 95%, barnlausra para á aldrinum 18-45 ára, spilar tölvuleiki.

Þau sem búa ein, á aldursbilinu 18-35 ára, og spila tölvuleiki eru litlu færri, eða 91%, Talan er aftur á móti komin niður í 64% þegar svör einbúa frá 35-66 ára eru skoðuð.

Þegar fólk er komið á ellilífeyrisaldur er hlutfall þeirra sem …
Þegar fólk er komið á ellilífeyrisaldur er hlutfall þeirra sem segjast spila tölvuleiki komið niður í 40%. Ljósmynd/Royalty Free

Ungir foreldrar á aldursbilinu 18-45 ára eru býsna iðin við leikjaspilun en 75% þeirra segjast spila tölvuleiki. Spilunin fer síðan niður í 50%, bæði hjá eldri foreldrum, 46-66 ára, og foreldrum á sama aldri en ekki með börn á heimilinu.

Þegar fólk á lífeyrisaldri, 67 ára og eldra, var spurt fór svarhlutfall þeirra sem segjast spila tölvuleiki niður í 40%.

Könnunin var gerð á netinu fyrstu tólf daga ágústmánaðar 2024. Úrtakið, 1748 manns, var valið af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup af öllu landinu, 18 ára og eldri. Þátttaka var 48% þar sem 849 svöruðu en 899 ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka