„Raf­íþróttir fylgi al­ger­lega stjórnsýslu íþrótta“

Jökull Jóhannsson, framkvæmdastjóri RÍSÍ, benti á að ólíkt viðurkenndum íþróttagreinum …
Jökull Jóhannsson, framkvæmdastjóri RÍSÍ, benti á að ólíkt viðurkenndum íþróttagreinum standi og falli rafíþróttadeildir með fjölda þátttakenda hverju sinni.

Jökull Jóhannsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasambands Íslands, og þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason voru gestir í Bítinu á Bylgjunni nýlega og ræddu þar margvíslegan efnahags- og samfélagslegan ávinning af eflingu rafíþrótta.

Vilhjálmur benti þar á mikið forvarnagildi rafíþrótta og Jökull minnti á mikilvægi þess að rafíþróttir fái sömu skilgreiningu og rótgrónari íþróttagreinar þannig að um þær gildi  sömu lög og reglur.

„Rafíþróttadeildirnar spretta hér upp um allt land sem íþróttafélög,“ sagði Vilhjálmur og benti á að um 70% íslenskra barna spila tölvuleiki og því sé for­varn­ar­gildið augljóst ef hægt er að „virkja þau sem hluta af einhverju samfélagi eins og íþróttafélagi.“

Þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason áréttaði að rafíþróttir snúist um „svo miklu …
Þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason áréttaði að rafíþróttir snúist um „svo miklu meira annað en bara að spila tölvuleikinn“ og að um raunverulega íþrótt er að ræða. mbl.is/Hallur Már

Vilhjálmur bætti við að mikilvægt væri að átta sig á að um raunverulega íþrótt er að ræða og rafíþróttir snúist um „svo miklu meira annað en bara að spila tölvuleikinn.“

Jökull tók undir þetta og nefndi handbolta sem dæmi og benti á að skipulagðar rafíþróttaæfingar eru í raun byggðar upp eins og æfingar í öðrum íþróttum. Krakkarnir hreyfa sig í 40 mínútur, fara síðan í tækniæfingar og í lokin fá þau að spila tölvuleikina sem þau æfa. 

Fullgilding rafíþrótta

„Þetta snýst um hugarþjálfun og vera með snerpu,“ hélt Vilhjálmur áfram. „Það eru einmitt einhverjar leikreglur sem þú þarft að fara eftir. Þú þarft að hugsa um heilsuna og annað til þess að ná árangri. Þú ert að keppa að einhverju. Það eru skipulögð mót og annað slíkt.“ 

Jökull og Vilhjálmur fóru síðan nánar út í vægi þess að rafíþróttir fái opinbera fullgildingu sem íþróttir þannig að sömu lög og reglur gildi um þær og rótgrónari íþróttagreinar.

„Það er skrefið sem er verið að taka á Norðurlöndum. Það er komið í Svíþjóð Danmörku og Finnlandi,“ sagði Jökull og benti á að flækjustigið hækki og þrýstingurinn aukist á rekstur íþróttadeildar þegar krafan er að  hún standi undir sér hvert einasta misseri.

Jökull tók síðan ímyndað dæmi um að ef fáir krakkar myndu skrá sig hjá sunddeild eitt haustið þá myndi það ekki leiða til þess að deildin myndi leggjast niður. Sund sé viðurkennd íþrótt og nyti því opinberra styrkja og þyrfti því ekki nauðsynlega að standa alltaf undir sér. Ólíkt rafíþróttadeildunum sem standa og falla með fjölda þátttakenda hverju sinni.

Tveir fyrir einn

Þegar Vilhjálmur var spurður hvað hann teldi þurfa að gera tilþess að efla rafíþróttastarfið á Íslandi sagði hann að stuðla þurfi að því að ÍSÍ taki Rafíþróttasambandið inn sem fullgildan meðlim og að „rafíþróttir fylgi algerlega stjórnsýslu íþrótta“ og njóti þannig sama stuðnings stjórnvalda og aðrar íþróttagreinar.

Vilhjálmur sagðist líta á rafíþróttir sem „tveir fyrir einn“ en hann hefur undanfarið, á Alþingi og víðar, bent á bæði á forvarnargildi rafíþrótta og efnahagslegan ávinning sem stór rafíþróttamót hafa skilað þjóðarbúinu.

Hvað efnahagslega þáttinn varðar vísaði Jökull í skýrslu danska ráðgjafarfyrirtækisins Geelmuyden Kiese sem mat fjögur alþjóðleg stórmót sem haldin voru hér í Covid á samanlagt 17,9 milljarða króna auk þess sem meta mætti landkynningargildi mótahaldsins mjög varlega á ekki undir 9 milljarða.

Engin landamæri

Vilhjálmur sagði að þetta væri járn sem yrði að hamra á meðan það væri heitt og því þyrfti að aðstoða Rafíþróttasambandið við gerð þarfagreiningar á hvernig halda megi áfram að laða slík stórmót til landsins. 

„Það tókst vel í Covid en við þurfum að halda áfram að fá stórmót hingað,“ sagði Vilhjálmur og bætti við að nú væri lag til að byggja á góðri reynslu og afspurn af mótahaldinu 2021 og 2022 þannig að hægt verði að byggja áfram á þeim góða árangri sem náðist þá áður en hann gleymist.

„Það eru engin landamæri í þessu,“ hélt Vilhjálmur áfram og benti á að slíkt stórmótahald væri til þess fallið að auka enn frekar áhugan á rafíþróttum og efla ungmennastarf Rafíþróttasambandsins og hann legðist því glaður á árarnar við að hjálpa RÍSÍ að „byggja upp þessa mikilvægu íþróttagrein.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert