Djöflar eru „svakalega sáttir“ á leiðinni upp í úrvalsdeild eftir sigur á Bölvun í hörkuspennandi úrslitaviðureign opnu deildarinnar í Tölvulistabikarnum í Overwatch um helgina.
Úrslitakeppnin fór fram á laugardaginn og Djöflar fögnuðu þá meistaratitili sem þeir lönduðu á sínu fyrsta keppnistímabili. Bölvun er þó ekki allri lokið enn þar sem liðið á eftir að mæta Böðlum í umspili um sæti í úrvalsdeildinni á næsta ári.
Lýsendurnir Óli og Rúnar mættu, að gefnu tilefni, prúðbúnir til leiks í beinni útsendingu og voru sammála um að sigur Djöfla væri verðskuldaður enda hefðu þeir átt svör við öllu sem Bölvun lagði á þá.
Djöflarnir voru ekki á staðnum en „hálfur meðlimur“ liðsins, Ólafur Sigurðsson, þekktari sem Anduriel, var fulltrúi þeirra í Arena, og fagnaði sigrinum í stuttu viðtali við þá félaga sem töldu óhætt að tala um „afrek“ í þessu sambandi þar sem Djöflar voru að spila sitt fyrsta tímabil.
Ólafur, sem lýsti sjálfum sér sem „þjálfara skástrik resident ringer“ sagði liðið svakalega sátt við árangurinn og að hann sjálfur gæti ekki verið stoltari af sínu fólki.
Óli og Rúnar spjölluðu einnig við fjóra leikmenn Bölvunar sem töldu sig hafa verið óheppna enda hafi verið slíkt jafnræði með liðunum að þeir hafi í raun aðeins verið hársbreidd frá sigri.
Áður en Djöflar mættu Bölvun börðust Musteri og Berserkir um þriðja sæti deildarinnar sem endaði í Musterinu með 3:2 sigri liðsins. Úrskurður Óla og Rúnars var að viðureignin hefði verið mjög jöfn og í raun enginn sérstakur munur á liðunum.
Sigurinn hefði því getað fallið beggja vegna en Berserkirnir vildu kenna þrálátri bölvun um að svo fór sem fór. Þeim gangi alltaf vel framan af en síðan þegar á reynir klikki alltaf eitthvað. Máli sínu til stuðnings bentu Böðlarnir á að þetta væri í fjórða skipti sem þeir endi í fjórða sæti.
Overwatch-balli tímabilsins er þó engan veginn lokið þótt úrslit liggi fyrir í opnu deildinni því barist verður til úrslita í Tölvulistabikarnum í Arena á föstudaginn, 29. nóvember, þegar ríkjandi meistarar Dusty mæta Þórsurum.
Enginn hætta er á öðru en að um háspennu viðureign verði að ræða því á meðan Dusty hefur titil að verja hafa Þórsarar að sama skapi titil að endurheimta þannig að í lokakeppninni munu ríkjandi og fyrrverandi meistarar takast á.