Leikja­spilun er góður grunnur fyrir skurðlækna

Rannsóknir benda til þess að tölvuleikjaspilun geti gagnast skurðlæknum í …
Rannsóknir benda til þess að tölvuleikjaspilun geti gagnast skurðlæknum í flóknum aðgerðum. mbl.is/Eggert

Rannsóknir á áhrifum tölvuleikjaspilunar á frammistöðu skurðlækna hafa rennt stoðum undir hugmyndir um tölvuleiki sem hagnýtt kennslutæki við þjálfun skurðlækna 21. aldarinnar.

Jákvæð áhrif tölvuleikja á færni og frammistöðu skurðlækna í flóknum aðgerðum hafa verið rannsökuð um árabil og niðurstöður þeirra benda eindregið til þess að tölvuleikir geti bæði verið góð þjálfun og undirbúningur fyrir skurðlækna. Ekki síst eftir því sem læknavísindunum fleygir fram og aðgerðaþjarkar, eða róbótar, verða algengari.

Rannsókn, sem kynnt var 2007 og enn er ítrekað vísað til, benti þá þegar til þess að tölvuleikir gætu vegið þungt í þjálfun skurðlækna á 21. öldinni. Niðurstöður hennar sýndu greinilega fram á að skurðlæknar, sem áttu sögu um leikjaspilun eða spiluðu hóflega, væru sneggri að bregðast við auk þess sem samhæfing sjónar þeirra og handa væri betri. 

Fljótari og gera færri mistök

Þá var gleggri afstöðusjón þeirra, sem er lykilatriði í stjórnun aðgerðaþjarka, einnig rakin til leikjaspilunar. Rannsóknin sýndi einnig fram á að skurðlæknar sem spiluðu tölvuleiki í meira en þrjár klukkustundir á viku gerðu færri mistök, væru fljótari og þeir náðu heilt yfir betri árangri í aðgerðarhermum en þeir sem ekki spiluðu tölvuleiki.

Sjónum var beint sérstaklega að þjálfunartæki þar sem skurðlæknar þurftu að ljúka ýmsum flóknum verkefnum við kviðarholsspeglun. Þar sem litlir skurðir og myndavélar eru notaðar við slíkar aðgerðir var kenningin að samspil augna og handa gætu ráðið miklu um hversu vel fólki gengi að klára verkefnið. 

Skurðlækningar eru leikur einn

Niðurstöðurnar sýndu síðan fram á að þessi hugmynd um samspil leikja og skurðlækninga var ekki úr lausu lofti gripin þar sem skurðlæknar, sem voru virkir spilarar, gerðu 32% færri mistök, voru 24% fljótari og náðu heilt yfir 26% betri árangri en þau sem ekki spiluðu tölvuleiki. 

Öllu nýlegri könnun frá 2021 styður við fyrri rannsóknir en með henni var sýnt fram á tengsl milli bætts árangurs í vélrænum aðgerðum og kviðarholsspeglunum og sögu um leikjaspilun og þjálfun byggðri á leikjagrunni.

Þá reyndust yngri skurðlæknar einnig mun fljótari að tileinka sér færni á þessum sviðum og talið er að skýringin á því kunni að liggja í því að þau séu líklegri til þess að hafa kynnst tölvuleikjum ung að árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert