Raf­íþróttir á prjónum eldri borgara

Eldri borgarar í félagsmiðstöðinni Borgum hafa tekið rafíþróttafræsðlu Þóris og …
Eldri borgarar í félagsmiðstöðinni Borgum hafa tekið rafíþróttafræsðlu Þóris og Adams fagnandi. Þau eru forvitin, spyrja mikið og áhugasöm um að prufa tölvuleiki svo lengi sem þeir gangi ekki út á stríðsbrölt. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ótrúlega gaman að sjá eldri borgara spila tölvuleiki. Við förum ekki út í neina stríðsleiki eða þess háttar og erum bara að kynna þau fyrir þægilegri afþreyingu og einhverju sem þau geta jafnvel gert með barnabörnunum,“ segir rafíþróttaþjálfarinn Þórir Viðarsson. 

Þórir og Adam Scanlon hafa undanfarið boðað eldri borgurum í Borgum, félagsmiðstöð velferðarsviðs í Grafarvogi, fagnaðarerindi rafíþróttanna með „léttri kynningu og góðri og skemmtilegri afþreyingu“, eins og hann orðar það.

„Við vorum með smá fyrirlestur á opnum degi í félagsmiðstöðinni þar sem við fengum tækifæri til að spjalla við eldri borgarana og kynna rafíþróttir fyrir þeim. Þetta hefur verið virkilega skemmtilegt. Þau eru mjög áhugasöm og forvitin um rafíþróttir og spyrja mikið. 

Við erum búnir að taka þrjár æfingar, einu sinni í mánuði, og hugmyndin er að keyra þetta aftur af stað eftir áramót,“ segir Þórir um móttökurnar sem eru þeim félögum hvatning til að halda heimsóknunum áfram og jafnvel að fjölga rafíþróttaæfingunum.

Þórir Viðarsson þjálfar jafnt unga sem aldna í rafíþróttum og …
Þórir Viðarsson þjálfar jafnt unga sem aldna í rafíþróttum og er óþreytandi við boðun fagnaðarerindis í kringum heimavöll sinn í Egilshöll. Ljósmynd/Viktor Birgisson

Lítið fyrir stríðsbrölt

Þórir segir eldri borgara almennt ekki þekkja mikið til tölvuleikja og mörg hver haldi að allt séu þetta eintómir skotleikir. „Þau tóku strax skýrt fram að þau vildu alls ekki spila stríðsleiki, en við erum að benda þeim á að þetta geti líka verið fjölskylduafþreying og eitthvað sem hægt er að gera saman.“

Þórir bendir þó á að smekkur eldra fólks sé ekkert síður misjafn en hjá þeim yngri og þannig hafi hann til dæmis séð þrjá eldri borgara skemmta sér konunglega í Call of Duty: Warzone í leikjasalnum Next Level Gaming sem þeir Adam reka í Egilshöll.

Gamla Nintenda-kempan Mario hefur löngum heillað unga spilara en nær …
Gamla Nintenda-kempan Mario hefur löngum heillað unga spilara en nær ekki síður vel til öldungadeildarinnar.

„Eftir aðra æfinguna okkar komu hingað þrír karlar sem duttu í Warzone og greinilegt að þeim þótti gaman að koma svona saman með einn kaldann í smá Warzone. Þannig að eldri kynslóðin er líka alveg í þessum leikjum.“

Prjónað áfram í Pico Park

Þórir segist lengi hafa lifað eftir einkunnarorðunum að um leið og þú hættir að leika þér verður þú gamall og bendir á að enginn skortur er á leikjum sem ættu að geta hentað eldra fólki. Þeir Adam hafi þannig til dæmis sýnt fólkinu í Borgum Mario Cart, Golf with your Friends og Pico Park 1 og 2. 

Pico Park leikirnir virðast henta eldri borgurum vel og merkilegt …
Pico Park leikirnir virðast henta eldri borgurum vel og merkilegt nokk virðist prjónafólk mæta til leiks með ákveðna forgjöf..

„Pico Park reynir nokkuð á samhæfingu sjónar og handa og það var skemmtilegt að fylgjast með hversu auðvelt konurnar sem prjóna mikið áttu með að ná tökum á leiknum. Síðan er gaman að segja frá því að eftir æfingu sagðist ein konan vera mjög spennt að segja barnabarninu að hún hafi verið að spila tölvuleik.“ 

Hugmynd tengdamömmu

Þórir segir hugmyndina að rafíþróttakynningunum fyrir eldri borgarana í raun komna frá tengdamömmu hans. „Þetta kom allt saman svolítið til út af tengdamóður minni. Hún hefur ekki notað tölvur það mikið og þarf mikla aðstoð. Hún hringir kannski ekki alveg fjórum sinnum í viku en nokkuð oft og hún kom með þessa hugmynd.“

Lítil hætta er á því að fólk verði of gamalt …
Lítil hætta er á því að fólk verði of gamalt og lúið til þess að skella sér í golf á meðan stafrænir vellir standa þeim opnir.

Þórir segir þá félaga endilega vilja halda áfram að aðstoða eldra fólk við að stunda rafíþróttir og að þeir séu gríðarlega spenntir fyrir því að halda starfinu áfram  eftir áramót. 

„Og vonandi vilja fleiri koma og prófa. Við erum alltaf tilbúnir til að taka á móti hverjum sem er. Bara spjalla og kynnast eldri borgurum sem geta líka spilað tölvuleiki,“ segir Þórir sem sér fyrir sér að einnig verði hægt að flétta almennari tölvufræðslu saman við rafíþróttirnar. 

„Með því til dæmis að bjóða upp á námskeið þar sem þeim er til dæmis bara kennt að nota rafræn skilríki, kaupa miða á Tix.is, stofna Gmail-reikning og að nota Facebook,“ segir yfirþjálfari rafíþrótta hjá Fjölni og einn eigenda NLG í Egilshöll sem boðar fagnaðarerindi rafíþróttanna af brennandi áhuga í nærumhverfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka