Samband meistarana gæti haft áhrif

Hjörvar Steinn og Helgi mætast í úrslitum Íslandsmótsins í netskák …
Hjörvar Steinn og Helgi mætast í úrslitum Íslandsmótsins í netskák í Arena á sunnudagskvöld. Húsið opnar klukkan 19 og beint streymi hefst klukkustund síðar.

„Helgi er gamli þjálfari Hjörvars og sá sem hjálpaði honum að verða stórmeistari. Ég held að þeirra samband gæti haft smá áhrif á einvígið,“ segir Björn Ívar Karlsson um stórmeistarana Helga Ólafsson og Hjörvar Stein Grétarsson sem munu tefla til úrslita á Íslandsmótinu í netskák í Arena á sunnudagskvöld.

„Þeir sem hafa náð bestum árangri í mótinu hingað til hafa verið að halda góðri stjórn á tímanum og halda skákunum gangandi án stórra mistaka,“ segir Björn Ívar sem hefur ásamt Ingvari Þór Jó­hann­es­syni lýst viðureignum mótsins í streymi og beinni útsendingu Sjónvarps Símans.

„Helgi er reynslumikill og mjög sterkur í hraðskák þrátt fyrir að vera orðinn 68 ára,“ heldur Björn Ívar áfram og bendir á að Helgi gefi yfirleitt ekki mikil færi á sér. Hann geti auk þess teflt mjög hratt, haldið góðu tempói og sett tímapressu á andstæðinginn.

„Hjörvar var um tíma okkar langsterkasti skákmaður en hefur dregið talsvert úr taflmennsku á síðustu árum,“ segir Björn Ívar þegar hann snýr sér að Hjörvari. „Hann hefur talað um að vera örlítið ryðgaður og er líklega eitthvað frá sínu besta,“ heldur Björn Ívar áfram og minnir á að á tímabili hafi Hjörvar Steinn verið ofarlega á heimslistanum með yfir 2700 hraðskákstig. 

Svipaður stíll

„Skákstíll Hjörvars er ekki ósvipaður Helga, hann teflir traust, gefur ekki mikil færi á sér, getur teflt hratt og sett pressu á klukkunni. Hjörvar leitast oft eftir því að fá stöður með mikið rými og „kaffæra“ andstæðinginn á þann hátt.

Ingvar Þór og Björn Ívar hafa fylgst vel með netskákmótinu …
Ingvar Þór og Björn Ívar hafa fylgst vel með netskákmótinu í beinum útsendingum og sá síðarnefndi á von á mjög jöfnu einvígi. Skjáskot/RÍSÍ

Það sem mér hefur fundist skemmtilegast á mótinu hingað til eru opnar, flóknar og spennandi skákir sem hafa ráðist í tímahraki auk mistaka, sem við höfum séð töluvert af. Sérstaklega frá þeim sem eru dottnir út!“

Björn Ívar segir þá Helga og Hjörvar hafa að mestu leyti náð að forðast stöður sem þessar, enda komnir alla leið í úrslit.

Ólík viðhorf

„Hjörvar hefur sjálfur talað um að honum finnist leiðinlegt að vinna Helga, að ég held í þeirri merkingu að hann líti upp til hans,“ segir Björn Ívar og rifjar síðan upp á sjálfur hafi Helgi sagst hafa fyrir reglu ,,að tapa ekki fyrir gömlum nemendum.“

„Ég á von á mjög jöfnu einvígi en tel samt líklegt að Hjörvar vinni. Hjörvar er sterkari í tímahraki og þar sem verður að teljast líklegt að skákirnar snúist um þunga stöðubaráttu og gætu orðið langar munu margar þeirra enda þannig að keppendur fara undir 20 sekúndur. Þar er Hjörvar mun líklegri en Helgi.

Til þess að vinna tel ég að Helgi verði að fá góðar stöður út úr byrjuninni og reyna að klekkja á Hjörvari þar.“

Þar sem keppendur á mótinu hafa hingað til teflt skákir sínar, að heiman, á netinu er rétt að árétta að í úrslitaviðureigninni munu þeir Helgi og Hjörvar mætast í Arena við Smáratorg í Kópavogi.

Úrslitaviðureignin á sunnudaginn er viðburður sem skákáhugafólk ætti ekki að …
Úrslitaviðureignin á sunnudaginn er viðburður sem skákáhugafólk ætti ekki að láta fram hjá sér fara.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert