Fjórði og síðasti hluti fréttaannáls rafíþrótta 2024 hverfist um úrslitin í sjö deildarkeppnum Rafíþróttasambandsins þar sem Hjörvar Steinn Grétarsson varð meðal annars Íslandsmeistari í netskák, Dusty tók Counter Strike með trompi og Klutz landaði sínum þriðja Íslandsmeistaratitli í Valorant.
Dusty átti góðu gengi að fagna í Counter Strike 2024. Á fyrri hluta ársins stóð liðið uppi sem sigurvegari Stórmeistaramótsins eftir nokkuð öruggan sigur á Sögu fyrir troðfullu húsi í Arena.
Dusty var ekki síður í stuði í Arena í nóvember þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Counter Strike með 3:1 sigri á Þór í úrslitum. Þrátt fyrir nokkuð afgerandi lokatölur var úrslitakeppnin æsispennandi og mikil stemning og tilfinningahiti í áhorfendum.
Kepnnistímabilið var gert upp að úrslitaleiknum loknum og þá var upplýst að lið VECA, sem í fyrra var kennt við Breiðablik, hefði verið valið lið ársins 2024. Liðið þótti sýna skemmtileg tilþrif á tímabilinu auk þess sem árangur þess kom mörgum á óvart.
Nýkrýndir deildarmeistararnir í Dusty státuðu af leikmanni tímabilsins, hinum magnaða spilara Heiðari Flóvent Friðrikssyni sem á vígvellinum er þekktari sem Midgard.
Rifill ársins kom úr röðum silfurliðs Þórsara en þar varð Antonio Kristófer Salvador (Tony) fyrir valinu. Þórsarar voru á hvínandi siglingu á tímabilinu og höfnuðu í 1. sæti deildarinnar fyrir umspil og úrslitakeppnina þar sem þeir máttu sætta sig við tap gegn Dusty.
Ólafur Barði Guðmundsson, sem spilar með Ármanni undir leikjanafninu „ofvirkur“, er AWP ársins 2024 og Böðvar Breki Guðmundsson (Zolo), liðsmaður Sögu, þótti hafa tekið mestum framförum á árinu og var verðlaunaður fyrir það.
Dusty varð meistari Tölvulistadeildarinnar í Overwatch, annað árið í röð, eftir að hafa rofið óslitna sigurgöngu Þórsara á tímabilinu með 4:1 sigri í úrslitaleik deildarinnar.
Þórsarar komu í úrslitin ósigraðir á reglulegu leiktímabili og voru í efsta sæti deildarinnar með 30 stig á móti 25 stigum Dusty. Afgerandi lokatölurnar komu því nokkuð á óvart þótt alltaf hafi legið fyrir að hart yrði barist þar sem Dusty hafði titil að verja og Þór, sem fyrrverandi meistari, hafði tækifæri til að endurheimta.
Áður en Þór og Dusty tókust á um meistaratitilinn kepptu Selir og Tröll um 3. sætið og lauk þeirri viðureign með 3:0 sigri Tröllanna.
Tvö bestu lið GR Verk Deildarinnar tókust á um Íslandsmeistaratitilinn í Rocket League að kvöldi laugardagsins 30. nóvember þegar Þórsarar sýndu mátt sinn og megin gegn OGV sem þeir sigruðu 4:1 í hörkuspennandi viðureignum.
Lið OGV fór ósigrað í gegnum tímabilið og mætti í úrslitin með 20 stig á móti 14 stigum Þórsara sem sýndu og sönnuðu að staðan breytist með hverjum leik.
Íslandsmeistarar Þórs voru frekir til fjörsins á úrslitakvöldi GR Verk Deildarinnar í Rocket League því auk þess að hampa bikarnum sópuðu þeir til sín viðurkenningum fyrir frammistöðuna á tímabilinu þar sem Elias „Regser“ Marjala var í aðalhlutverki.
Hann var bæði valinn Markamaskína og Skytta tímabilsins auk þess að hljóta titilinn Oat King tímabilsins.
Liðsfélagi Elíasar, Kristján „pabbi4“ Elmar Gottskálksson, var útnefndur Klessubílakóngur tímabilsins en Munda úr 354 tókst að bjarga einni viðurkenningu frá því að enda fyrir norðan með því að krækja í titilinn Stoðsendingaséní tímabilsins.
Öflugt lið Klutz landaði þriðja meistaratitli sínum með 3:1 sigri á Jötunn Valkyrjur í úrslitaviðureign Míludeildarinnar í Valorant kvenna. Liðin tókust á í Arena fyrstu helgina í desember þar sem gríðarlega góð stemning myndaðist senda áhuginn á Míludeildinni, einu kvennadeild landsins í rafíþróttum, aldrei verið meiri.
Daníel Máni Óskarsson og Mist Reykdal Magnúsdóttir lýstu lokabardaganum og greindu í beinni útsendingu og fóru að leik loknum hvergi leynt með ánægju sína með bæði frammistöðu liðanna og keppnistímabilið í heild.
Daníel sagði við upphaf mótsins í haust að upplagt hefði þótt að byrja á að bjóða upp á kvennadeild í Valorant þar sem kynjaskipting spilara sé nánast jöfn á heimsmælikvarða. „Sem er bara magnað fyrir tölvuleik. Valorant er líka rosalega litríkur, dálítið teiknimyndalegur og höfðar þannig kannski meira til yngra fólks.“
„Þetta er algert met. Við erum svo vön því að sjá þrjú til fjögur lið keppa og vorum kannski að búast við svona fimm liðum en svo eru þau bara átta sem er alveg klikkað,“ sagði Mist við sama tækifæri.
Hjörvar Steinn Grétarsson varð Íslandsmeistari í netskák í byrjun desember eftir að hafa lagt Helga Ólafsson, frekar auðveldlega, með 5,5 vinningum á móti hálfum í einvíginu um titilinn.
Flestir, þar á meðal skákskýrendur mótsins þeir Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson, höfðu búist við jöfnu einvígi en raunin reyndist síðan verða hálfgerð einstefna þar sem Helgi sá vart til sólar.
Alþjóðlegi skákmeistarinn Björn Þorfinnsson, sem sjálfur féll úr keppni í undanúrslitum mótsins eftir tap gegn Helga, tók að sér veislustjórn á úrslitakvöldinu í Arena og var til taks sem álitsgjafi í beinu útsendingunni frá einvíginu.
„Það má eiginlega segja að óheppnin hafi elt Helga í einvíginu. Hann lenti í mistökum með tölvumúsina í fyrstu skákinni eftir frábæra skák og missti drottningu fyrir ekkert,“ sagði Björn að leikslokum. „En það verður ekki af Hjörvari Steini tekið að tefldi afar vel og af miklum klókindum og krafti. Hann er verðskuldaður Íslandsmeistari.“
Denas Kazulis (denas 13) og Kristófer Tristan (iKristoo) skildu sig fljótt frá öðrum keppendum og háðu í raun einvígi á toppi deildarinnar meira eða minna allt keppnistímabilið þar sem þeir börðust um og skiptust á toppsætinu.
Óvissunni um hvor þeirra myndi standa uppi sem sigurvegari var ekki eytt fyrr en í síðustu umferð venjulegs leiktímabils.
Það varð því ekki fyrr en um miðjan nóvember, eftir eftir tíu vikur og tuttugu leiki, að Denas tryggði sér deildarmeistaratitlinn með 428 stig á móti 415 stigum Kristófers.
ELKO-Deildinni lauk síðan formlega í Arena í desember þar sem Denas tók við verðlaunum fyrir 1. sætið en Kristófer Tristan, rétti hins vegar sinn hlut með því að stela senunni og sigra báða leiki kvöldsins með aðdáunarverðum tilþrifum.
Deildarkeppnistímabili RÍSÍ lauk fyrir hálfum mánuði þegar Litla-Kraftvéladeildin, stundum kölluð „bumbuboltinn“ í Dota 2 var til lykta leidd með úrslitaviðureign Kuta og TSR Akademíunnar.
Leikar fóru þannig að eftir hörkuspennandi fjórða leik, þar sem lengst af gat brugðið til beggja vona, stóðu Kutarnir uppi sem deildarmeistarar 3:1. TSR Akademían mátti því sætta sig við 2. sætið og Hendakallarnir höfnuðu í því þriðja.
TSR Akademían hafði þó ekki alveg sagt sitt síðasta á úrslitakvöldinu þar sem Brynjólfur Sigurðsson, sem spilar með liðinu sem Young Pollur, var valinn MVP, eða mikilvægasti leikmaður keppnistímabilsins (Most Valuable Player), þegar kom að afhendingu viðurkenninga fyrir sérlega góða frammistöðu á árinu.
Þótt lið Snorra og dverganna hafi ekki unnið til verðlauna á mótinu mega þeir þó sæmilega við una þar sem þjálfarinn þeirra, Friðrik Snær „Alvörukeyrsla“ Tómasson var valinn besti þjálfarinn 2024.
Lið Alltof heimskra þótti hafa tekið mestum framförum á keppnistímabilinu og var verðlaunað sérstaklega fyrir auðsýnda viðleitni til þess að bæta sig á tímabilinu.