Spennandi og dramatísk ársuppgjör

Bryn­dís Heiða Gunn­ars­dótt­ir var sigursæl með Klutz, Hjörvar Steinn flaug …
Bryn­dís Heiða Gunn­ars­dótt­ir var sigursæl með Klutz, Hjörvar Steinn flaug sóló á toppinn í netskákinni og Þorsteinn Friðfinnsson leiddi sína menn í Dusty til sigurs í Counter Strike. Ljósmynd/Samsett

Fjórði og síðasti hluti fréttaannáls rafíþrótta 2024 hverfist um úrslitin í sjö deildarkeppnum Rafíþróttasambandsins þar sem Hjörvar Steinn Grétarsson varð meðal annars Íslandsmeistari í netskák, Dusty tók Counter Strike með trompi og Klutz landaði sínum þriðja Íslandsmeistaratitli í Valorant. 

Dusty átti góðu gengi að fagna í Counter Strike 2024. Á fyrri hluta ársins stóð liðið uppi sem sigurvegari Stórmeistaramótsins eftir nokkuð öruggan sigur á Sögu fyrir troðfullu húsi í Arena.

Ljósleiðaradeildin í Counter Strike

Dusty var ekki síður í stuði í Arena í nóvember þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Counter Strike með 3:1 sigri á Þór í úrslitum. Þrátt fyr­ir nokkuð af­ger­andi loka­töl­ur var úr­slita­keppn­in æsispenn­andi og mik­il stemn­ing og til­finn­inga­hiti í áhorf­end­um.

Kepnn­is­tíma­bilið var gert upp að úrslitaleiknum lokn­um og þá var upp­lýst að lið VECA, sem í fyrra var kennt við Breiðablik, hefði verið valið lið árs­ins 2024. Liðið þótti sýna skemmti­leg tilþrif á tíma­bil­inu auk þess sem ár­ang­ur þess kom mörg­um á óvart.

Nýkrýnd­ir deild­ar­meist­ar­arn­ir í Dusty státuðu af leik­manni tíma­bils­ins, hinum magnaða spil­ara Heiðari Flóvent Friðriks­syni sem á víg­vell­in­um er þekkt­ari sem Midgard.

Þorsteinn Friðfinnsson fremstur í flokki Dusty, nýrra Íslandsmeistara í Counter …
Þorsteinn Friðfinnsson fremstur í flokki Dusty, nýrra Íslandsmeistara í Counter Strike.

Rif­ill árs­ins kom úr röðum silf­urliðs Þórsara en þar varð Ant­onio Kristó­fer Sal­vador (Tony) fyr­ir val­inu. Þórsar­ar voru á hvín­andi sigl­ingu á tíma­bil­inu og höfnuðu í 1. sæti deild­ar­inn­ar fyr­ir um­spil og úr­slita­keppn­ina þar sem þeir máttu sætta sig við tap gegn Dusty.

Ólaf­ur Barði Guðmunds­son, sem spil­ar með Ármanni und­ir leikj­a­nafn­inu „of­virk­ur“, er AWP árs­ins 2024 og Böðvar Breki Guðmunds­son (Zolo), liðsmaður Sögu, þótti hafa tekið mest­um fram­förum á ár­inu og var verðlaunaður fyr­ir það.

Tölvulistabikarinn í Overwatch

Dusty varð meist­ari Tölvulista­deild­ar­inn­ar í Overwatch, annað árið í röð, eft­ir að hafa rofið óslitna sig­ur­göngu Þórsara á tíma­bil­inu með 4:1 sigri í úr­slita­leik deild­ar­inn­ar.

Þórsar­ar komu í úr­slit­in ósigraðir á reglu­legu leiktíma­bili og voru í efsta sæti deildarinnar með 30 stig á móti 25 stigum Dusty. Afgerandi loka­töl­urnar komu því nokkuð á óvart þótt alltaf hafi legið fyrir að hart yrði bar­ist þar sem Dusty hafði titil að verja og Þór, sem fyrr­ver­andi meist­ari, hafði tæki­færi til að end­ur­heimta.

Liðsmenn Dusty voru skýjum ofar í eftir 4:1 sigur á …
Liðsmenn Dusty voru skýjum ofar í eftir 4:1 sigur á Þór í úrslitum Tölvulistabikarins.

Áður en Þór og Dusty tók­ust á um meist­ara­titil­inn kepptu Sel­ir og Tröll um 3. sætið og lauk þeirri viður­eign með 3:0 sigri Tröll­anna. 

GR Verk Deild­in í Rocket League 

Tvö bestu lið GR Verk Deild­ar­inn­ar tók­ust á um Íslands­meist­ara­titil­inn í Rocket League að kvöldi laugardagsins 30. nóvember þegar Þórsar­ar sýndu mátt sinn og meg­in gegn OGV sem þeir sigruðu 4:1 í hörku­spenn­andi viður­eign­um.

Lið OGV fór ósigrað í gegn­um tíma­bilið og mætti í úr­slit­in með 20 stig á móti 14 stig­um Þórsara sem sýndu og sönnuðu að staðan breytist með hverjum leik.

Íslands­meist­ar­ar Þórs voru frek­ir til fjörs­ins á úr­slita­kvöldi GR Verk Deild­ar­inn­ar í Rocket League því auk þess að hampa bik­arn­um sópuðu þeir til sín viður­kenn­ing­um fyr­ir frammistöðuna á tíma­bil­inu þar sem Eli­as „Regser“ Mar­jala var í aðalhlutverki.

Þórsarar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í Rocket League í hörkuspennandi úrslitaviðureign …
Þórsarar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í Rocket League í hörkuspennandi úrslitaviðureign gegn OGV.

Hann var bæði val­inn Marka­maskína og Skytta tíma­bils­ins auk þess að hljóta titil­inn Oat King tíma­bils­ins.

Liðsfé­lagi Elíasar, Kristján „pabb­i4“ Elm­ar Gott­skálks­son, var út­nefnd­ur Klessu­bíla­kóng­ur tíma­bils­ins en Munda úr 354 tókst að bjarga einni viður­kenn­ingu frá því að enda fyr­ir norðan með því að krækja í titil­inn Stoðsend­inga­séní tíma­bils­ins.

Míludeildin í Valorant kvenna

Öflugt lið Klutz landaði þriðja meistaratitli sínum með 3:1 sigri á Jötunn Valkyrjur í úrslitaviðureign Mílu­deild­ar­inn­ar í Valorant kvenna. Liðin tókust á í Arena fyrstu helgina í desember þar sem gríðarlega góð stemning myndaðist senda áhuginn á Mílu­deild­inni, einu kvenna­­deild lands­ins í raf­­í­­þrótt­um, aldrei verið meiri.

Daní­el Máni Óskars­son og Mist Reyk­dal Magnús­dótt­ir lýstu loka­bar­daganum og greindu í beinni útsendingu og fóru að leik lokn­um hvergi leynt með ánægju sína með bæði frammistöðu liðanna og keppn­is­tíma­bilið í heild.

Liðskonur Klutz eyddu öllum efasemdum um hverjar eru bestar í …
Liðskonur Klutz eyddu öllum efasemdum um hverjar eru bestar í Míludeildinni í Valorant og hömpuðu sínum þriðja meistaratitli. Ljósmynd/Þórlindur

Daní­el sagði við upp­haf móts­ins í haust að upp­lagt hefði þótt að byrja á að bjóða upp á kvenna­deild í Val­or­ant þar sem kynja­skipt­ing spil­ara sé nán­ast jöfn á heims­mæli­kv­arða. „Sem er bara magnað fyr­ir tölvu­leik. Val­or­ant er líka rosa­lega lit­rík­ur, dá­lítið teikni­mynda­leg­ur og höfðar þannig kannski meira til yngra fólks.“

„Þetta er al­gert met. Við erum svo vön því að sjá þrjú til fjög­ur lið keppa og vor­um kannski að bú­ast við svona fimm liðum en svo eru þau bara átta sem er al­veg klikkað,“ sagði Mist við sama tæki­færi.

Íslandsmót Símans í netskák

Hjörvar Steinn Grétarsson varð Íslandsmeistari í netskák í byrjun desember eftir að hafa lagt Helga Ólafs­son, frek­ar auðveld­lega, með 5,5 vinn­ing­um á móti hálf­um í ein­víg­inu um ­titil­inn.

Flest­ir, þar á meðal skák­skýrend­ur móts­ins þeir Björn Ívar Karls­son og Ingvar Þór Jó­hann­es­son, höfðu bú­ist við jöfnu ein­vígi en raun­in reynd­ist síðan verða hálf­gerð ein­stefna þar sem Helgi sá vart til sól­ar.

Hjörvar Steinn Grétarsson, nýr Íslandsmeistari í netskák, tók við verðlaununum …
Hjörvar Steinn Grétarsson, nýr Íslandsmeistari í netskák, tók við verðlaununum frá Gunnari Björnssyni, forseta Skáksambands Íslands.

Alþjóðlegi skák­meist­ar­inn Björn Þorfinns­son, sem sjálfur féll úr keppni í undanúr­slit­um móts­ins eft­ir tap gegn Helga, tók að sér veislustjórn á úrslitakvöldinu í Arena og var til taks sem álitsgjafi í beinu útsendingunni frá einvíginu.

„Það má eig­in­lega segja að óheppn­in hafi elt Helga í ein­víg­inu. Hann lenti í mis­tök­um með tölvumús­ina í fyrstu skák­inni eft­ir frá­bæra skák og missti drottn­ingu fyr­ir ekk­ert,“ sagði Björn að leikslokum. „En það verður ekki af Hjörv­ari Steini tekið að tefldi afar vel og af mikl­um klók­ind­um og krafti. Hann er verðskuldaður Íslands­meist­ari.“ 

ELKO-Deildin í Fortnite

Den­as Kazu­lis (den­as 13) og Kristó­fer Trist­an (iKristoo) skildu sig fljótt frá öðrum keppendum og háðu í raun ein­vígi á toppi deild­ar­inn­ar meira eða minna allt keppn­is­tíma­bilið þar sem þeir börðust um og skiptust á toppsætinu. 

Denas Kazulis sigraði ELKO-Deildina í Fortnite í nóvember og fékk …
Denas Kazulis sigraði ELKO-Deildina í Fortnite í nóvember og fékk loks að hampa verðlaununum á úrslitakvöldi deildarinnar í desember. Ljósmynd/Atli Már

Óviss­unni um hvor þeirra myndi standa uppi sem sig­ur­veg­ari var ekki eytt fyrr en í síðustu um­ferð venju­legs leiktíma­bils.

Það varð því ekki fyrr en um miðjan nóvember, eftir eft­ir tíu vik­ur og tutt­ugu leiki, að Denas tryggði sér deildarmeistaratitlinn með 428 stig á móti 415 stig­um Kristó­fers.

ELKO-Deildinni lauk síðan formlega í Arena í desember þar sem Denas tók við verðlaunum fyrir 1. sætið en Kristó­fer Trist­an, rétti hins veg­ar sinn hlut með því að stela sen­unni og sigra báða leiki kvölds­ins með aðdá­un­ar­verðum tilþrif­um.

Litla-Kraftvéladeildin í Dota 2

Deildarkeppnistímabili RÍSÍ lauk fyrir hálfum mánuði þegar Litla-Kraftvéladeildin, stundum kölluð „bumbuboltinn“ í Dota 2 var til lykta leidd með úrslitaviðureign Kuta og TSR Akademíunnar.

Sverrir Freyr (tiny.kuti) ásamt félögum sínum í sigurliði Kuta þeim …
Sverrir Freyr (tiny.kuti) ásamt félögum sínum í sigurliði Kuta þeim Birgi (b1x), Erni Frey (Beygli) og Gísla Rúnari (hsolo). Ljósmynd/Bergur Árnason

Leikar fóru þannig að eftir hörku­spenn­andi fjórða leik, þar sem lengst af gat brugðið til beggja vona, stóðu Kutarnir uppi sem deildarmeistarar 3:1. TSR Akademían mátti því sætta sig við 2. sætið og Hendakallarnir höfnuðu í því þriðja.

TSR Aka­demí­an hafði þó ekki al­veg sagt sitt síðasta á úrslitakvöldinu þar sem Brynj­ólf­ur Sig­urðsson, sem spil­ar með liðinu sem Young Poll­ur, var val­inn MVP, eða mik­il­væg­asti leikmaður keppn­is­tíma­bils­ins (Most Valua­ble Player), þegar kom að af­hend­ingu viður­kenn­inga fyr­ir sér­lega góða frammistöðu á ár­inu.

Þótt lið Snorra og dverg­anna hafi ekki unnið til verðlauna á mót­inu mega þeir þó sæmi­lega við una þar sem þjálf­ar­inn þeirra, Friðrik Snær „Al­vöru­keyrsla“ Tóm­as­son var val­inn besti þjálf­ar­inn 2024.

Lið Alltof heimskra þótti hafa tekið mest­um fram­förum á keppn­is­tíma­bil­inu og var verðlaunað sér­stak­lega fyr­ir auðsýnda viðleitni til þess að bæta sig á tíma­bil­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert