„Maður tók svo vel eftir því hversu fólk bætti sig mikið við að taka þátt í deildinni,“ segir lýsandinn Aron Fannar um fyrsta ár deildarinnar í Fortnite og hvetur Fortnite-fólk eindregið til þess að skrá sig, ekki seinna en strax, til leiks á næsta keppnistímabili.
„Þetta var náttúrlega fyrsta tímabilið núna þannig að það er bara gott að við erum að ná að skapa eitthvað stórt og byrja svona vel. Það er geggjað,“ segir Aron Fannar um leiktímabil nýliðins árs.
„Þetta var stórt ár og það er gaman að sjá þetta stækka og stækka og gaman að taka þátt í því. Þetta gekk rosa vel og stefnir í góða átt. Við vorum með 50 manna deild og ég sé enga ástæðu fyrir því að við ættum ekki að geta fyllt mótið,“ segir hann um deildina 2025 sem fer í gang strax núna í janúar.
„Ég hugsa að 2025 verði 100% stærra en 2024 og að við fáum miklu fleiri leikmenn inn núna. Þannig að það ætti að vera ekkert mál að fylla þessa deild og bara um að gera að allir, sem eru í aðildarfélögum eða einhverju svoleiðis, skrái sig. Það er ekki eftir neinu að bíða.“
Skráning í deildina er þegar hafin hér þar sem einnig má finna allar frekari upplýsingar um fyrirkomulag keppninnar.
Aron bendir á að keppt verði með breyttu fyrirkomulagi á þessu ári. „Við erum í rauninni að fara að breyta keppninni. Fyrst eru tveir og tveir saman í fjórar vikur. Síðan eru þrír saman í aðrar fjórar vikur og eins og ég segi þá ættu aðildarfélög endilega að hvetja krakkana til að skrá sig.“
Aron segir tilvalið fyrir unga spilara að keppa á mótum. Bæði sé gaman og hvetjandi að hafa eitthvað að keppa að og þannig geti þau líka komist að því hvar þau standa. Hann leggur einnig áherslu á að það sem honum hafi fundist skemmtilegast við deildina í fyrra var að fylgjast með framförum spilaranna eftir því sem leið á mótið.
„Ástæðan fyrir því að ég mæli með skráningu er að maður tók svo vel eftir því hversu fólk bætti sig mikið við að taka þátt í deildinni. Maður sá bara þvílíkan mun á spilurum frá viku eitt yfir í viku tíu. Virkilega gaman að fylgjast með því,“ segir Aron og hvetur stelpur sem spila Fortnite sérstaklega til að skrá sig. Þær séu margar en enn sem komið er eru strákar í miklum meirihluta þeirra sem mæta til keppni.