Daníel Máni Óskarsson, mótastjóri og lýsandi deildarinnar í Valorant, segir eftirminnilegast á nýliðnu ári þegar keppanda tókst að ná sjö „fröggum“ í einni umferð. Eitthvað sem hann hafi aldrei áður séð gerast frá því hann byrjaði að spila leikinn.
„Ef ég þyrfti að velja eitt móment bara tengt tölvuleiknum sjálfum þá var það klárlega „roundið“ þar sem leikmaður náði sjö „fröggum“ í einni umferð,“ segir Daníel, sem í Valorant er betur þekktur sem Bangsímon, og lýsir afrekinu sem hlutfallslegu undri.
„Ég hef bara aldrei séð þetta síðan ég byrjaði að spila leikinn og að ná því núna á móti í streymi stendur líklega mest upp úr fyrir mér. Svona frekar magnað móment,“ heldur Daníel áfram og bendir á að til þess að ná slíkum árangri þurfi ótrúlega margt að ganga upp og koma saman.
Þegar Daníel er spurður almennt út í rafíþróttaárið 2024 bendir hann á að stjórn deildarinnar sé mjög ung og þau hafi öll verið að koma í fyrsta skipti að mótastjórn með beinum hætti.
Hlutirnir hafi því gengið svolítið upp og niður en hann telji tímabilinu þó best lýst þannig að það hafi alltaf verið gaman. „Þetta gekk ekki alltaf eins og í sögu en þetta var alltaf gaman. Og við lærðum mjög mikið. Þetta var lærdómsríkt ár.“
Deildin í Valorant er eina kvennadeildin þar sem keppt er í meistaraflokki og þegar Daníel er spurður úti í hápunkta ársins 2024 í deildinni er svarið einfaldlega bara aðsóknin á mótið.
„Það var náttúrlega bara aðsóknin. Þetta var metaðsókn í kvennadeild Valorant á Íslandi bara frá byrjun. Átta lið er bara meira en við höfum nokkurn tímann séð. „Daníel bendir á að liðin hafi hingað til alltaf verið fjögur og þegar sú tala tvöfaldist á einu ári sé ekki annað hægt en horfa björtum augum fram á veginn og velta fyrir sér hversu langt verði hægt að komast.
„Yfir 50 stelpur skráðar sem er náttúrlega bara geggjað og gerir okkur bara spennt fyrir framtíðinni. Við förum mjög bjartsýn inn í nýja árið og ætlum svolítið að prófa nýtt, breyta aðeins til, og prófa okkur aðeins meira áfram. Núna erum við reynslunni ríkari eftir fyrsta tímabilið okkar þannig að við ætlum að reyna að gera þetta betur.“