Hjörvar Steinn ekki með á Síminn Invitational

Fimm keppendur tryggðu sig inn á netskákmótið Síminn Invitational í …
Fimm keppendur tryggðu sig inn á netskákmótið Síminn Invitational í gærkvöld. Íslandsmeistarinn, Hjörvar Steinn Grétarsson, hefur hins vegar afþakkað boð um að keppa á mótinu. mbl.is/Ásdís

Ingvar Þór Jóhannesson, Símon Þórhallsson, Dagur Ragnarsson, Halldór B. Halldórsson og Davíð Kjartansson verða meðal keppenda á netskákmótinu Síminn Invitational eftir æsispennandi undankeppni í gærkvöld. 

Þessir fimm fylla því flokk sextán keppenda á mótinu, sem verður með mjög svipuðu sniði og Íslandsmótið í netskák, þar sem tefldur verður útsláttur þar til einn stendur uppi sem sigurvegari.

Íslandsmóti Símans í netskák 2024 lauk skömmu fyrir áramót með sigri Hjörvars Steins Grétarssonar. Hann verður þó ekki með á Síminn Invitational þar sem hann Jón Viktor Gunnarsson afþökkuðu boð um þátttöku í úrslitakeppni mótsins.

Helgi Áss Grétarsson fékk stigasæti Jóns Viktors og fimmta sætinu var bætt við í undankeppni gærkvöldsins en þau áttu upphaflega að vera fjögur.

Fyrir utan þá fimm sem tryggðu sér sæti á mótinu í gærkvöld bauðst þeim sem komust í átta manna úrslit á Íslandsmótinu í netskák 2024 að taka þátt. Sjö þeirra, Helgi Ólafsson, Guðmundur Kjartansson, Björn Þorfinnsson, Jóhann Hjartarson, Aleksandr Domalchuk-Jonasson, Bragi Þorfinnsson og Hannes Hlífar Stefánsson þáðu boðið. 

Vigni Vatnari Stefánssyni, Hilmi Frey Heimissyni og Helga Áss Grétarssyni buðust sæti á mótinu sem þrír stigahæstu skákmenn landsins með virk hraðskákstig 1. janúar 2025 án þess að tilheyra fyrrnefnda hópnum. Þá fékk Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir einnig boð á mótið sem Íslandsmeistari kvenna í hraðskák 2024.

Eins og áður segir fylltu þeir Ingvar Þór, Símon, Dagur, Halldór og Davíð síðan flokk keppenda eftir undankeppnina sem fór fram á Chess.com á sunnudgaskvöld. Keppnin þar var æsispennandi og það var ekki fyrr en í lokaumferðinni sem það réðist hvernig raðaðist í fimm efstu sætin. 

Ingvar Þór, Símon og Dagur fóru allir vel af stað og leiddu mótið lengst af. Ingvar gaf aðeins eftir undir lokin og slapp með skrekkinn í lokaumferðinni og lokastaðan varð þessi, með fyrirvara um skönnun á skákum í gegnum Fairplay kerfi  Chess.com:

1 Dagur Ragnarsson
2 Ingvar Þór Jóhannesson
3 Símon Þórhallsson
4 Halldór Brynjar Halldórsson
5 Markús Orri Óskarsson

Sextán manna úrslit hefjast sunnudaginn 12. janúar og verður teflt þrjá næstu sunnudaga og svo halda 8-manna úrslit áfram í byrjun mars og mótinu lýkur loks með úrslitum 6. apríl.

Í sextán og átta manna úrslitum er fyrirhugað að hafa sex skáka einvígi – sá vinnur sem fyrr fær 3½ vinning en í undanúrslitum er fyrirhugað að hafa 10 skáka einvígi – sá vinnur sem fyrr fær 5½ vinning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert