Keppni hófst í gærkvöld á Reykjavík International Games (RIG) í Counter Strike þegar Venus lagði Dusty JR 2:0, Fylkir sigraði Sindra 2:1 og Aurora afgreiddi Verðbólgu 2:0. Þá snarstöðvaði ace.X Hjólið á Enska, einnig 2:0.
Tómas Jóhannsson og Ólafur Hrafn Steinarsson lýstu viðureign ace.X og Hjólsins á Enska í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans og streymisrásum Rafíþróttasambandsins.
Þeir fóru hvergi leynt með hversu spenntir þeir eru fyrir RIG móti Ljósleiðarans þetta árið og Ólafur Hrafn sagðist bæði spenntur fyrir kvöldinu framundan og ekki síður RIG yfirleitt. Þá fagnaði hann því sérstaklega að úrslitakeppnin væri að færast aftur yfir í Laugardalshöllina.
„Mig langar ógeðslega mikið að geta mætt og horft á fólk á sviði og svo í ofanálag líka verðlaunin núna fyrir RIG fljúga út á EPIC LAN og keppa,“ sagði Ólafur Hrafn um leið og hann vakti athygli á að verðlaunum fyrir 1. sætið á mótinu fylgir ferð á EPIC.LAN 35, stærsta opna LAN mótið á Englandi.
„Þetta eru sturluð verðlaun,“ bætti Tómas við og rifjaði upp að Íslendingar hafa einu sinni áður farið frægðarför á þetta mót og tveir, ef ekki þrír, keppendur á RIG hafi þá verið með í för.
„Það verður skemmtilegt að sjá hvort þeir fái tækifæri til að fara út aftur og ná titli aftur,“ sagði Tómas en 2022 kom Dusty, sá og sigraði á EPIC:LAN 35 þar sem Þorsteinn Friðfinnsson var valinn MVP (Most Valuable Player).
RIG í Counter Strike heldur áfram annað kvöld, fimmtudaginn 9. janúar, en þá mætast Dusty og ace.X, VECA og Fylkir, Saga og Aurora og Kano og Venus.