Dýnamíska dúóið enn í stuði

Félagarnir Denas og Jens hafa unnið þrjá af fjórum leikjum …
Félagarnir Denas og Jens hafa unnið þrjá af fjórum leikjum og eru á toppi deildarinnar í Fortnite Duos þegar keppnin er hálfnuð.

Dýnamíska dúóið Denas Kazulis og Jens, leikskólabróðir hans, treystu stöðu sína á toppi deildarinnar í tvíliðaleik í Fortnite þar sem þeir hafa komið sér notalega fyrir með 175 stig eftir þrjá sigra í fjórum leikjum.

Önnur umferð af fjórum var spiluð í gærkvöld og óhætt að segja að þeir Jens og Denas hafi mætt funheitir til leiks úr fyrstu umferð þar sem þeir sigruðu báða leikina. 

Þeir héldu uppteknum hætti og unnu fyrri leik kvöldsins með ellefu fellum sem er „ruglað“ eins og Ólafur Hrafn orðaði það þegar hann og Stefán Atli fóru yfir leikinn í beinni útsendingu.

Æskuvinirnir börðust ekki síður vel í seinni leik kvöldsins og á tímabili leit út fyrir að þeir myndu bæta enn einum sigri við. Undir lokin lentu þeir hins vegar í „veseni“ og Emil Vík­ing­ur (Falcon Emil) og Lester Se­arch (Gaga GguGu) lönduðu sínum fyrsta sigri í deildinni og skutu sér inn á topp tíu listann í 6. sætið. 

Ólafur Hrafn benti á að sama hversu góðir spilararnir væru þá kæmi alltaf að því að eitthvað klikkaði enda mætti segja að það hefði verið „aðeins of mikið“ ef þeir hefðu unnið fjórða leikinn í röð. Þeim hefði engu að síður tekist að tryggja stöðu sína á toppnum þar sem helstu keppinautar þeirra féllu úr leiknum á undan þeim.

Þegar tvær umferðir og fjórir leikir eru eftir er staðan þannig að 83 stig skilja milli Denasar og Jens og Sigmars (S1gmarrl2r2) og Kristófers Tristan (iKristoo) sem eru í 2. sæti með 92 stig.

Þeir eru svo aftur á móti til alls líklegir en Sigmar náði frábærum árangri einn síns liðs í fyrstu umferð og Kristófer var, eins og mörg ef til vill muna, harðasti andstæðingur Denasar í sóló keppninni í deildinni í fyrra.

Þriðja umferð fer fram mánudaginn 27. janúar og keppnin heldur áfram viku síðar, 3. febrúar en síðan verður skipt yfir í keppni þríliðaleik.

Denas og Jens eru með 83 stiga forskot á toppi …
Denas og Jens eru með 83 stiga forskot á toppi deildarinnar. Skjáskot/RÍSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert