Schumacher keppir ekki

Sjöfaldur heimsmeistari í formúlu 1, Þjóðverjinn Michael Schumacher, mun ekki keppa fyrir Ferrari í Valencia um aðra helgi eins og til stóð.

Hinn fertugi Schumacher sagði eftir að hafa ekið Ferraribíl á æfingum að því miður hefði hann ekki náð sér nægilega vel af hálsmeiðslum sínum og gæti því ekki keppt í Valencia.

Ökumaðurinn meiddist á hálsi í febrúar en hélt að hann væri búinn að ná sér. „Ég fann fyrir verk við æfingar á Mugello en hélt að það myndi lagast. Því miður varð það ekki og ég er því greinilega ekki orðinn nógu góður í hálsinum til að þola það álag sem fylgir því að keppa í formúlunni.

Mér þykir þetta afskaplega leitt, bæði vegna Ferrari-liðsins og eins aðdáenda minna sem biðu eftir að fá sjá mig keyra aftur. En það er búið að reyna allt til að kippa þessu í lag, en ekkert gengur,“ sagði Schumacher.

Schumacher á stjórnborði Ferrari í Nürburgring.
Schumacher á stjórnborði Ferrari í Nürburgring. reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert