Coulthard vinnur sviptingasaman kappakstur í Melbourne

Liðsmenn McLaren fagna Coulthard á mark í Melbourne.
Liðsmenn McLaren fagna Coulthard á mark í Melbourne.

David Coulthard hjá McLaren hefur tæpast haft mikla trú á því er hann stillti bíl sínum upp á 11. rásstað í Melbourne að hann ætti eftir að aka fyrstur yfir endamarkið - en það gerði hann í lok afar sviptingasams kappakstur. Getur vertíðin í Formúlu-1 tæpast byrjað betur eftir tilbreytingarleysi síðasta árs. Óvenjulegt er að hvorugur Ferrariþóranna komst á verðlaunapall.

Coulthard þaggaði ekki bara niður í gagnrýnendum sem telja hann hafa misst neistann með hinum óvænta en afar spennandi sigri. Hann stöðvaði einnig sigurgöngu Ferrari og kom í veg fyrir að Michael Schumacher hafnaði 20. mótið í röð á verðlaunapalli.

Þá leiðir Coulthard stigakeppni heimsmeistara eftir mótið í Melbourne en Schumacher hafði verið í forystu í þeirri keppni undanfarin tvö og hálft ár, eða 896 daga, frá bandaríska kappakstrinum í Indianapolis árið 2000.

Sigurinn er hinn 13. sem Coulthard vinnur í Formúlu-1 og sá fyrsti frá í Mónakó í fyrravor. Sigurinn sannar og að McLarenliðið kann tökin á þeim breytingum sem orðið hafa í íþróttinni með nýjum tækni- og keppnisreglum.

Coulthard hóf keppni á sjöttu rásröð og með sigrinum kemur hann í veg fyrir að Michael Schumacher ynni fjórða árið í röð í Melbourne. Schumacher varð fjórði en hann virtist stefna til sigurs um tíma en átti eitt þjónustustopp eftir er 13 hringir voru á mark. Voru þá jafnframt fjarlægðar af bílnum tætlur tveggja vindskeiða af framanverðum bílnum sem brotnuðu af; skemmdust líklega er hann reyndi að taka fram úr Kimi Räikkönen hjá McLaren en varð að víkja og keyra yfir beygjubrík í leiðinni.

Dagurinn var McLarens en þetta er fyrsti sigur liðsins í Melbourne frá því Mika Häkkinen fór með sigur þar af hólmi 1998. Fyrir utan sigur Coulthards háði Räikkönen um skeið harðan slag við Schumacher um fyrsta sæti og er heimsmeistarinn freistaði einu sinni framúraksturs gaf Finninn ungi hvergi eftir svo að Schumacher hraktist út úr brautinni. Varð Räikkönen á endanum þriðji en milli þeirra Coulthards varð Juan Pablo Montoya hjá Williams annar á mark.

„Við teljum okkur vissulega vera jafn samkeppnisfæra og Williams ef ekki Ferrari, en við stefnum að því að brúa bilið sem kann að vera," sagði Coulthard og bætti við að líklega tefldi liðið fram nýjum keppnisbíl, 2003-bílnum í 5.-6. móti.

Montoya tapaði forskotinu er öryggisbíllinn kom út

Montoya hafði forystu framan af, tókst að byggja upp gott forskot á Schumacher en það fór forgörðum er öryggisbíll var sendur út í brautina í nokkra hringi eftir að Rubens Barrichello hjá Ferrari hafði klesst á öryggisvegg. Ók hann full djarft í beygju og aðeins hring síðar flaug Ralph firman hjá Jordan út úr sömu beygju og laskaði sinn bíl einnig. Brak úr báðum dreifðist inn á brautina.

Montoya var öðru sinni kominn með gott forskot er hann klúðraði því með því að snarsnúa bílnum á brautinni og missti þá Coulthard fram úr.

Jarno Trulli hjá Renault varð fimmti á mark, Heinz-Harald Frentzen hjá Sauber sjötti, Fernando Alonso hjá Renault sjöundi og síðasta stigið hreppti Ralf Schumacher hjá Williams. Eftir góða frammistöðu framan af féllu BAR-bílarnir niður á við, Jacques Villeneuve varð níundi og Jenson Button 10, en aðeins hálf sekúnda skildi þá að.

Með árangri sínum fékk Renault fleiri stig úr mótinu en Ferrari og því í þriðja sæti í keppni bílsmiða, á eftir McLaren og Williams.

Ræsingin í Melbourne, fyrsta móti ársins 2003.
Ræsingin í Melbourne, fyrsta móti ársins 2003.
Coulthard ekur inn í bílskúrareinina eftir sigurhring í Melbourne.
Coulthard ekur inn í bílskúrareinina eftir sigurhring í Melbourne.
Coulthard hrósar sigri í Melbourne.
Coulthard hrósar sigri í Melbourne.
Fyrstu þrír á fyrsta verðelaunapalli ársins 2003. Juan Pablo Montoya …
Fyrstu þrír á fyrsta verðelaunapalli ársins 2003. Juan Pablo Montoya (l.t.v.) , David Coulthard og Kimi Räikkönen.
Coulthard hefur sigurlaunin á loft í Melbourne.
Coulthard hefur sigurlaunin á loft í Melbourne.
Räikkönen hampar þriðja sætinu á verðlaunapallinum í Melbourne.
Räikkönen hampar þriðja sætinu á verðlaunapallinum í Melbourne.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert