BMW kaupir Sauberliðið

Jacques Villeneuve á ferð á Sauberbíl í Indianapolis um nýliðna …
Jacques Villeneuve á ferð á Sauberbíl í Indianapolis um nýliðna helgi. mbl.is/sauberf1

Þýski bílaframleiðandinn BMW hefur keypt keppnislið Sauber í Formúlu-1, að því er tilkynnt var á blaðamannafundi í höfuðstöðvum BMW í München í dag. Með tilkynningunni þetta fæst staðfestur margra mánaða þrálátur orðrómur um að BMW ætlaði að yfirtaka Sauber, en þeim orðrómi var jafnan vísað á bug af hálfu fulltrúa þýsku bílaverksmiðjanna.

BMW kaupir nær allan hlut Peter Sauber í liðinu nú þegar og mun fyrir árslok 2008 eignast öll hlutabréf svissneska bankans Credit Suisse í því. Peter Sauber mun þó áfram eiga lítilsháttar hlut í liðinu og aðstoða BMW á næstu árum sem ráðgjafi liðsins.

Talsmenn BMW sögðu á blaðamannafundinum að þeir myndu kjósa að halda áfram að sjá Williamsliðinu fyrir mótorum í keppnisbíla sína en verksmiðjurnar hafa verið í því hlutverki frá árinu 2000. Sauberliðið fær nú mótora í bíla sína frá Ferrari.

Sambúð BMW og Williams hefur hins vegar farið versnandi á undanförnum mánuðum, einkum vegna óánægju BMW með lítinn árangur Williams í keppni.

Sauberliðið hóf keppni í Formúlu-1 árið 1993 en hefur aldrei hrósað sigri í móti. Það hefur tvisvar á þessum tíma átt bíl á fremstu rásröð kappaksturs og sex sinnum komið manni á verðlaunapall, alltaf í þriðja sætið. Þar eiga í hlut Heinz-Harald Frentzen 1995 og 2003, Johnny Herberet 1996 og 1997, Jean Alesi 1998 og Nick Heidfeld 2001.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert