Árangur Michaels Schumacher í tímatökunum í Mónakó hefur verið strikaður út og verður hann að hefja Mónakókappaksturinn á morgun í 22. og síðasta sæti. Niðurstaða dómara var að hann hefði haft rangt við til að koma í veg fyrir að keppinautar hans kæmust fram fyrir hann í rásröðinni.
Í tilkynningu um úrskurð sinn segja dómarar kappakstursins að Schumacher hafi af ásettu ráði stöðvað bíl sinn á lokamínútum tímatökunnar og með því komið í veg fyrir að keppinautar hans gætu sett betri tíma en hann hefði sjálfur náð. Hvorki hann né Ferrari getur áfrýjað niðurstöðunni.
Vegna þessa verður heimsmeistarinn Fernando Alonso hjá Renault á ráspól á morgun og við hlið hans á fremstu rásröð Mark Webber hjá Williams.
Dómararnir kváðu upp úrskurð sinn átta klukkustundum eftir að tímatökunum lauk. Hafa þeir aldrei legið jafn lengi yfir nokkru máli á undanförnum árum. Sögðust þeir bæði hafa hlýtt á skýringar Schumacher sjálfs, vélfræðings hans Chris Dyer, Ross Brawn tæknistjóra Ferrari, liðsstjórans Stefano Domenicali, mótsstjórans Charlie Whiting og hugbúnaðarsérfræðings Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA), Alan Prudom.
Þá lágu þeir yfir frekari gögnum sem þeir fengu bæði frá Ferrari og FIA, skoðuðu myndbandsupptökur og báru saman gögn um aksturshraða á öðrum hringjum Schumacher í tímatökunum.
Dómararnir - Tony Scott Andrews, Joaquin Verdegay og Christian Calmes - segja að á örlagahringnum hafi Schumacher sett besta tíma dagsins á fyrsta tímatökusvæði. Hann hafi hægt ferðina á því næsta og ekið inn að 18. beygju á svipuðum hraða og fyrri hröðu hringjunum. Þar hafi hann bremsað af þvílíku afli að framdekkin hafi læstst. Við að ná aftur valdi á bílnum hafi hann drepið á mótornum.
„Eftir samanburð á öllum viðeigandi gögnum finna dómararnir enga réttlætanlega ástæðu fyrir ökuþórinn að bremsa með svo óviðeigandi, ofmiklu og óvenjulegu afli á þessum stað í brautinni. Þeir eiga því engan annan kost en að komast að þeirri niðurstöðu að ökuþórinn hafi af ásettu ráði stöðvað bíl sinn á brautinni á lokamínútum tímatökunnar, þegar hann hafði sett hraðasta tímann,“ sagði í yfirlýsingu dómaranna.
Þeir sögðu Schumacher hafa brotið gegn íþrótta- og keppnisreglum formúlunnar. Því hafi þeir strikað árangur hans út og afleiðing þess væri sú að hann yrði að hefja kappaksturinn á morgun aftastur. Refsingunni beittu dómararnir á grundvelli 112. greinar íþróttareglanna en samkvæmt því gæti Ferrari ekki áfrýjað niðurstöðu þeirra.
Vegna niðurstöðu dómaranna verður rásröð kappakstursins á morgun sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Dekk |
---|---|---|---|
1. | Alonso | Renault | (M) |
2. | Webber | Williams | (B) |
3. | Räkkönen | McLaren | (M) |
4. | Montoya | McLaren | (M) |
5. | Barrichello | Honda | (M) |
6. | Trulli | Toyota | (B) |
7. | Coulthard | Red Bull | (M) |
8. | Rosberg | Williams | (B) |
9. | Fisichella | Renault | (M) |
10. | R.Schumacher | Toyota | (B) |
11. | Klien | Red Bull | (M) |
12. | Liuzzi | Toro Rosso | (M) |
13. | Button | Honda | (M) |
14. | Villeneuve | BMW | (M) |
15. | Heidfeld | BMW | (M) |
16. | Albers | MF1 | (B) |
17. | Monteiro | MF1 | (B) |
18. | Speed | Toro Rosso | (M) |
19. | Sato | Super Aguri | (B) |
20. | Montagny | Super Aguri | (B) |
21. | Massa | Ferrari | (B) |
22. | M.Schumacher | Ferrari | (B) |
Giancarlo Fisichella á Renault var refsað fyrir að hafa hindrað David Coulthard hjá Red Bull. Voru þrír bestu hringir hans strikaðir út. Við það færðist hann úr fimmta sæti í það níunda.