Michael Schumacher hjá Ferrari er ekki alveg ókunnugur deilumálum. Skarkalinn í Mónakó í framhaldi af því að hann vann keppnina um ráspólinn eftir að drapst á bílnum hans undir lok hringsins þarf ekki að koma á óvart. Þar þóttust menn sjá hinn gamla góða Schumacher teygja gildi drengskapar út á efstu mörk og jafnvel yfir þau.
„Voru þetta virkilega mistök?” spurði Juan Pablo Montoya hjá McLaren og bætti við: „Það er ég ekki viss um.“ Liðsfélagi hans Kimi Räikkönen bætti við: „Ég trúi því ekki að hann hafi átt við einhver vandamál að glíma.“
„Ég vona að þetta hafi verið ásetningur því hafi þetta verið mistök þá eru þau þess eðlis að hann ætti ekki að hafa keppnisleyfi. Geti menn gert mistök af þessu tagi eiga menn ekki að aka kappakstursbíl. Það er engin leið til að gera mistök af þessu tagi,“ sagði gamall fjandi Schumachers á keppnisbrautinni, Jacques Villeneuve.
„Svona lagað gæti mann ekki dreymt um að gera sjálfur. Ég veit ekki hvað flýgur gegnum huga þess sem ákveður að gera svona lagað, þegar menn vita að allir eru að horfa á þá og sjá. Ég skil þetta ekki, þetta er heimska.
Þetta sýnir að það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að leyfa mönnum að njóta oft vafans. Menn átta sig á því að í hvert skipti sem eitthvað hefur gerst er ástæða fyrir því. Þetta var óþarfi, hann hefur orðið heimsmeistari sjö sinnum og var á ráspól. Hvers vegna að gera þetta? Hann hefur það eitt upp úr þessu að hann setur niður,“ sagði Villeneuve.
Renaultstjórinn Flavio Briatore taldi að Fernando Alonso kynni að hafa unnið ráspólinn hefði hann getað ekið óhindrað um Rascasse-beygjuna þar sem Schumacher drap á bíl sínum. Hann gagnrýndi heimsmeistarann fyrrverandi hart og líkti útskýringum hans við ævintýrasögu.
„Þar sem við erum hvorki Mjallhvít né dvergarnir sjö þá held ég það sem hann gerði hafi verið óíþróttamannslegt,“ sagði Briatore. Því vísaði Schumacher á bug og sagðist einfaldlega hafa gert mistök. Hann var strax eftir tímatökurnar boðaður á fund dómnefndar kappakstursins útaf atvikinu.
„Hvað sem manni verður á þá telja óvinir manns eitt og fólkið sem stendur með þér heldur annað. Ýmsir trú því kannski ekki en þetta er sú veröld sem við búum við,“ sagði Schumacher.
Mörgu þrætumálinu hefur skotið upp í veröld Schumacher um dagana. Svo sem mætti kannski búast við þegar afar harðfylginn keppnisþór á í hlut, sem unnið hefur 86 mót frá því hann hóf keppni árið 1991.
Gremjan í hans garð hefur vaxið eftir að hann gekk til liðs við Ferrari in 1996 en á mörgum vertíðum hefur hann verið í sérflokki á skarlatsrauðum keppnisfákum ítalska liðsins.
Fyrsta uppþotið varð reyndar eftir að hann vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil með árekstri við breska ökuþórinn Damon Hill í Adelaide í Ástralíu 1994. Þá ók Schumacher á Benettonbíl og yfirmaður hans var Flavio Briatore sem nú stýrir Renault.
„Það er tvennt sem greinir Michael að frá öðrum ökuþórum formúlunnar – ótvíræður hæfileiki og hugarfar. Ég dáist að því fyrrnefnda en verður flökurt af því síðarnefnda,“ sagði Hill í bók eftir að hafa unnið heimsmeistaratitilinn 1996.
Árið 1997 var sakaður um að haga sér eins og í „villta vestrinu“ eftir að reyna að stanga Jacques Villeneuve út úr brautinni í Evrópukappakstrinum í Jerez á Spáni; lokamóti ársins þar sem heimsmeistaratitill stóðum báðum til boða.
Schumacher hafði eins stigs forystu í stigakeppninni fyrir mótið og hefði unnið titilinn með brottfalli Villeneuve, sem ók Williamsbíl. Hann hefur alltaf haldið því fram að það hafi ekki verið ásetningur er hann sveigði inn í bíl Villeneuve.
Hvorki dómarar mótsins né Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) tók undir með honum. Var hann dæmdur úr leik og sviptur öllum keppnisstigum á vertíðinni og strikaður út í keppninni um titilinn.
Óánægjualda braust út á ný eftir austurríska kappaksturinn 2002. Liðsfélagi hans Rubens Barrichello hafi haft forystu frá upphafi er honum var gert að víkja fyrir Schumacher á síðasta hring. Fékk hann fyrirmæli frá stjórnendum liðsins að hleypa Schumacher fram úr og gefa honum þannig sigur. Óánægjuraddirnar bergmáluðu um alla heimsbyggðina.
Jafnvel bróðir hans Ralf hefur orðið fyrir barðinu á hinum óbilandi sigurvilja Schumacher. Í Evrópukappakstrinum í Nürburgring 2001 ók hann í sveig yfir brautina í ræsingunni og sótti að Ralf. Neyddist yngri bróðirinn til að draga úr hraðanum svo hann ætti ekki á hættu að vera neyddur utan í vegg af bróður sínum. Varð æfur yfir atvikinu og skorti á bróðurkærleik í það skiptið.