Er leið að lokum kappakstursins í Imola í gær varð allt í einu uppi fótur og fit í bílskúr Ferrariliðsins, ekki vegna þess að liðsmenn reyndu að flýta sér á brautarvegginn til að fagna Michael Schumacher á mark, heldur vegna ótta um að til sigurs hans kæmi ekki.
Komið hefur í ljós að Schumacher átti við vandamál í bíl sínum að stríða undir lok kappakstursins og um tíma var talið að kalla þyrfti hann inn að bílskúr á lokahringjunum til að skipa um stýrishjól. Aukastopp af því tagi hefði án efa kostað hann sigur.
Með samstarfi við tæknistjórann Ross Brawn gegnum talstöðina tókst Schumacher hins vegar að koma farkosti sínum í heila höfn án þess að til aukastopps kæmi.
Að sögn Brawn voru breytingar gerðar á stýrinu og stjórntækjum þess fyrir skömmu og hættu sumir takkar og tól þess að svara sem skyldi. Liðinu til láns gat Schumacher haldið áfram og fyrir vikið vann Ferrari tvöfaldan sigur í San Marínó-kappakstrinum en 20 ár voru liðin frá því liðið vann tvöfalt í Imola.
Sunnudagsbíltúr Schumachers í Imola - Myndasyrpur
Ferrari fagnar tvöföldum sigri í Imola