Ísland vann Finnland 3:0 í leiknum um 7. sætið

Rakel Hönnudóttir, sem hér er á ferðinni gegn Portúgal, kom …
Rakel Hönnudóttir, sem hér er á ferðinni gegn Portúgal, kom Íslandi í 2:0 gegn Finnlandi. Ljósmynd/Carlos Brito

Ísland sigraði Finnland, 3:0, í leiknum um 7. sætið á Algarve-mótinu í knattspyrnu kvenna í Portúgal í dag. Íslenska liðið vann alla fjóra leiki sína á mótinu og náði eins langt og mögulegt var og hafnaði næst á eftir sex af bestu landsliðum heims.

Margrét Lára Viðarsdóttir kom Íslandi yfir á 12. mínútu með sínu sjötta marki á mótinu og skoraði þar með í áttunda landsleiknum í röð. Rakel Hönnudóttir bætti öðru marki við á 41. mínútu, 2:0. Guðrún Sóley Gunnarsdóttir innsiglaði sigurinn í uppbótartíma, 3:0.

Fyrstu tíu mínútur leiksins voru nokkuð líflegar. Sara Björk Gunnarsdóttir var tvívegis ógnandi við mark Finna, sem síðan áttu hættulega sókn á 6. mínútu en Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður var á undan finnskum sóknarmanni og kom boltanum í burtu.

Á 12. mínútu náði Ísland forystunni með stórglæsilegu marki. Margrét Lára Viðarsdóttir fékk boltann fyrir utan vítateig Finna og afgreiddi hann með gullfallegu skoti í netmöskvana, óverjandi fyrir finnska markvörðinn, 1:0. Sjötta mark Margrétar á mótinu og hún er nú búin að skora í átta landsleikjum Íslands í röð.

Finnar voru ágengari eftir markið og Guðbjörg markvörður greip tvívegis vel inní leikinn eftir hættulegar sóknir þeirra á 14. og 19. mínútu.

Á 20. mínútu tók Edda Garðarsdóttir aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Finna og sendi boltann inní vítateiginn. Guðrún Sóley Gunnarsdóttir náði skoti, í varnarmann og horn. Eftir hornspyrnu Eddu skaut Katrín Jónsdóttir fyrirliði yfir finnska markið. 

Á 26. mínútu var Edda aftur á ferð með aukaspyrnu og uppúr henni átti Katrín skot rétt framhjá marki Finna. Engu munaði að Söru Björk Gunnarsdóttur tækist að stýra boltanum í netið af stuttu færi.

Finnar sóttu nokkuð eftir þetta án þess að skapa sér teljandi færi. Þeir áttu aukaspyrnu á hættulegum stað á 34. mínútu, skutu í varnarvegg Íslands og síðan framhjá markinu.

Á 41. mínútu náði Ísland tveggja marka forystu. Ásta Árnadóttir tók langt innkast á vinstri kantinum, boltinn barst alla leið að markstönginni fjær þar sem Rakel Hönnudóttir skoraði af miklu harðfylgi, sitt fyrsta A-landsliðsmark fyrir Ísland, 2:0.

Finnar fengu tvær hornspyrnur undir lok hálfleiksins. Guðbjörg markvörður greip boltann af miklu öryggi eftir þá síðari og í sömu andrá var flautað til hálfleiks - 2:0 fyrir Ísland í hléi.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari gerði engar breytingar á íslenska liðinu í hálfleik.

Á 51. mínútu slapp Margrét Lára innfyrir vörn Finna en renndi boltanum framhjá markinu.

Embla Grétarsdóttir kom inná fyrir Ástu Árnadóttur á 57. mínútu.

Margrét Lára Viðarsdóttir átti skot sem finnski markvörðurinn varði á 60. mínútu og þá kom Katrín Ómarsdóttir inná fyrir Söru B. Gunnarsdóttur.

Á 61. mínútu skaut Margrét Lára hörkuskot á mark Finna eftir aukaspyrnu af 25 metra færi. Markvörðurinn varði naumlega í horninu niðri og engu munaði að Katrín Ómarsdóttir næði að fylgja á eftir og skora.

Greta Mjöll Samúelsdóttir kom inná fyrir Guðnýju B. Ómarsdóttur á 64. mínútu og Katrín Ómarsdóttir fékk gula spjaldið á 66. mínútu.

Guðbjörg varði langskot af öryggi á 69. mínútu en annars sóttu liðin til skiptis án þess að skapa sér umtalsverð færi.

Dóra María Lárusdóttir kom inná fyrir Rakel Hönnudóttur á 73. mínútu.

Finnar sóttu hart að marki Íslands í framhaldi af því og á 78. mínútu varði Guðbjörg mjög vel hörkuskot að markinu, með því að slá boltann í horn.  

Erla Steina Arnardóttir kom inná fyrir Dóru Stefánsdóttur á 83. mínútu og Sandra Sigurðardóttir markvörður kom inná fyrir Guðbjörgu á 88. mínútu.

Þegar tvær mínútur voru komnar framyfir leiktímann tók Edda Garðarsdóttir hornspyrnu. Eftir mikla þvögu framan við finnska markið náði Guðrún Sóley Gunnarsdóttir að skora með vinstri fæti, sitt fyrsta mark í 46 A-landsleikjum, 3:0. 

Lið Íslands: (4-3-3) Guðbjörg Gunnarsdóttir (Sandra Sigurðardóttir 88.) - Ólína G. Viðarsdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Katrín Jónsdóttir, Ásta Árnadóttir (Embla Grétarsdóttir 57.) - Edda Garðarsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir (Katrín Ómarsdóttir 60.), Dóra Stefánsdóttir (Erla Steina Arnardóttir 83.) - Rakel Hönnudóttir (Dóra María Lárusdóttir 73.), Guðný Björk Óðinsdóttir (Greta Mjöll Samúelsdóttir 64.), Margrét Lára Víðarsdóttir.

Katrín Jónsdóttir fyrirliði Íslands setti leikjamet í dag, spilaði sinn 70. landsleik og skákaði með því Ásthildi Helgadóttur.

Finnska liðið er talið sterkara en það íslenska. Það er í 16. sæti heimslista FIFA, Ísland er í 21. sæti, og Finnar komust í átta liða úrslit á síðasta Evrópumóti.

Íslenska liðið fagnar einu marka sinna á mótinu í Portúgal.
Íslenska liðið fagnar einu marka sinna á mótinu í Portúgal. Ljósmynd/Carlos Brito
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert