Stjarnan vann og Selfoss tapaði

Stjarnan og KA eigast við í Garðabænum.
Stjarnan og KA eigast við í Garðabænum. mbl.is

Stjarnan er komin upp fyrir Selfoss í 2. sæti 1. deildar karla í knattspyrnu eftir leiki kvöldsins. Stjarnan vann KA 1:0 og Fjarðabyggð lagði Selfoss 2:1. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Stjarnan hefur nú eins stigs forystu á Selfoss og betri markatölu þegar ein umferð er eftir. Selfoss tekur á móti ÍBV í lokaumferðinni og Stjarnan sækir Hauka heim í Hafnarfjörð.

ÍBV tryggði sér sæti í efstu deild með 1:0-sigri á KS/Leiftri og Leiknir sendi Njarðvík niður um deild með 2:1-sigri í Breiðholtinu eftir að hafa lent undir.

Stöðuna í 1. deild má sjá hér.

Úrslit kvöldsins:
Stjarnan - KA 1:0
KS/Leiftur - ÍBV 0:1
Fjarðabyggð - Selfoss 2:1
Leiknir - Njarðvík 2:1
Þór - Haukar 1:1
Víkingur Ó. - Víkingur R. 1:2

4. mín. Egill Atlason skoraði fyrsta markið í Ólafsvík fyrir Víking R., 1:0. 

9. mín. Selfyssingar fengu vítaspyrnu eftir að brotið var á Kristjáni Óla Sigurðssyni. Hann tók spyrnuna sjálfur en Srdjan Rajkovic, markvörður Fjarðabyggðar, varði. 

11. mín. Aron Már Smárason kom Njarðvík yfir gegn Leikni, 0:1. 

28. mín. Brynjar Víðisson jafnaði metin fyrir Víking Ó. í Ólafsvík, 1:1. 

29. mín. Fjarðabyggð er komin 1:0 yfir gegn Selfossi. Sveinbjörn Jónasson skoraði markið úr teignum eftir langt innkast. 

34. mín. Atli Heimisson er búinn að koma ÍBV yfir gegn KS/Leiftri en með sigri tryggir ÍBV sér sæti í Landsbankadeildinni að ári. Staðan 1:0.

36. mín. Víkingur R. komst 2:1 yfir í Ólafsvík með sjálfsmarki Alfreðs Elíasar Jóhannssonar

39. mín. Fjarðabyggð fékk vítaspyrnu en Sveinbjörn Jónasson þrumaði í stöngina. Tvær vítaspyrnur í súginn fyrir austan.

42. mín. Rautt spjald! Selfyssingurinn Boban Jovic fékk að líta rauða spjaldið fyrir að slá Grétar Ómarsson.

Staðan í hálfleik: Stjarnan - KA 0:0, KS/Leiftur - ÍBV 0:1, Fjarðabyggð - Selfoss 1:0, Leiknir - Njarðvík 0:1, Víkingur Ó. - Víkingur R. 1:2, Þór - Haukar 0:0.

48. mín. Haukar eru komnir yfir á Akureyri gegn Þórsurum með marki Davíðs Ellertssonar. 0:1 er staðan.

65. mín. Stjörnumenn hafa verið mun líklegri en KA til að skora í Garðabænum en sóknir þeirra hafa engu skilað enn og staðan því markalaus.

69. mín. Einar Örn Einarsson jafnaði metin fyrir Leikni gegn Njarðvík og tveimur mínútum síðar skoraði Fannar Þór Arnarsson og kom Leikni yfir. 2:1 er því staðan í Breiðholtinu. 

77. mín. Henning Eyþór Jónasson jafnaði fyrir Selfoss úr vítaspyrnu fyrir austan, 1:1.

78. mín. Jóhann Helgi Hannesson jafnaði fyrir Þór, 1:1. 

83. mín. Srdjan Rajkovic, markvörður Fjarðabyggðar, kom liðinu yfir gegn Selfossi með marki úr vítaspyrnu, 2:1.

89. mín. Stjarnan hefur sótt nánast án afláts og það skilaði loks marki undir lokin þegar fyrirliðinn Daníel Laxdal skoraði af stuttu færi, 1:0.

90. mín. Selfyssingar skoruðu mark en eftir mikla reikistefnu var það dæmt af.

90. mín. Ingólfur Þórarinsson leikmaður Selfoss fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka