„Lið sem leikur svona í jafnmikilvægum leik og þessum hefur ekkert í úrvalsdeild að gera,“ sagði Þórhallur Dan Jóhannsson, fyrirliði Hauka, ómyrkur í máli eftir 3:0 tap gegn ÍR í 18. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í gær. Á sama tíma vann Selfoss Leikni og Víkingur gerði markalaust jafntefli við Aftureldingu.
Haukar eru í harðri baráttu við HK og Fjarðabyggð, sem mætast einmitt í dag, um að fylgja Selfyssingum upp í úrvalsdeild og eru fyrir leikinn í dag í 2. sæti með tveggja stiga forskot á HK.
„Það er nóg af hæfileikum í þessu liði en ég sá þá ekki í dag og við vorum eins og byrjendur eftir að hafa leikið vel í síðustu leikjum. Menn þurfa að spyrja sig núna hvort þeir vilji fara í úrvalsdeild, eða hvort þeir vilji vera miðlungslið í 1. deild,“ sagði Þórhallur, en Haukar lentu 3:0 undir í fyrri hálfleiknum.