Bayern að krækja í eftirsóttan bita

Michael Olise ásamt Oliver Glasner, knattspyrnustjóra Crystal Palace.
Michael Olise ásamt Oliver Glasner, knattspyrnustjóra Crystal Palace. AFP/Adrian Dennis

Knattspyrnumaðurinn Michael Olise, leikmaður Crystal Palace, er á leið til þýska stórveldisins Bayern München.

The Athletic greinir frá því að Olise hafi ákveðið að fara til Bayern en hann hefur verið afar eftirsóttur eftir frábæra frammistöðu með Palace í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Chelsea var til að mynda mjög áhugasamt um að fá Olise aftur til liðs við sig, en hann lék með yngri liðum Chelsea frá 2009 til 2016.

Newcastle United bar einnig víurnar í Olise auk þess sem Manchester United og Manchester City höfðu áhuga en leist honum best á að ganga til liðs við Bayern.

Reiknar þýska félagið með því að fá tilboð samþykkt í Olise áður en langt um líður þar sem hann er með kaupákvæði í samningi sínum við Palace.

Olise er fæddur á Englandi en hefur leikið fyrir yngri landslið Frakklands auk þess að geta valið að spila fyrir landslið Nígeríu og Alsír, þar sem foreldrar hans eru ættuð þaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert