Skoraði í New York

Dagur Dan Þórhallsson í leik með Orlando City.
Dagur Dan Þórhallsson í leik með Orlando City. Ljósmynd/Orlando City

Dagur Dan Þórhallsson skoraði í 4:2 tapi Orlando City gegn New York City í bandarísku  MLS-deild­inni í knatt­spyrnu í nótt.

Dagur var í byrjunarliði Orlando en liðið fékk á sig þrjú mörk í fyrri hálfleik. Dagur minnkaði muninn fyrir Orlando í 72. mínútu með skallamarki eftir stoðsendingu frá Martin Ojeda. Duncan McGuire skoraði svo annað mark Orlando á annarri mínútu uppbótartímans en Monef Bakrar skoraði fjórða mark New York tveimur mínútum síðar og lokastaðan 4:2

Orlando er í 10. sæti Austurdeildar með 21 stig, jafn mörg og Atlanta í sætinu fyrir ofan sem er umspilssæti. New York er í fjórða sæti með 32 stig.

Þetta er annað mark Dags í deildinni á þessu tímabili en hann hefur spilað alla 20 leiki Orlando, 18 þeirra í byrjunarliði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert