Bandaríkin úr leik

Gio Reyna í baráttu við leikmenn Úrúgvæ í nótt
Gio Reyna í baráttu við leikmenn Úrúgvæ í nótt AFP/Jamie Squire

Úrúgvæ vann gestgjafana frá Bandaríkjunum í Ameríkubikar karla í fótbolta í Kansas City í nótt með einu marki gegn engu. Panama fylgir Úrúgvæ upp úr C-riðli en Bandaríkin og Bólivía eru úr leik.

Marcelo Bielsa, þjálfari Úrúgvæ, var í leikbanni en það kom ekki að sök því Mathias Olivera skoraði sigurmark leiksins á 66. mínútu þegar hann fylgdi eftir föstum skalla Ronald Araujo.

Starf Gregg Berhalter, þjálfara Bandaríkjanna, hangir á bláþræði en Bandaríkin halda heimsmeistaramótið 2026 ásamt nágrönnum sínum í Mexíkó og Kanada. Að komast upp úr riðli og lenda fyrir ofan Panama og Bólivíu, að minnsta kosti, þótti sjálfsögð krafa og niðurstaðan er því mikil vonbrigði.

Panama lagði Bólivíu 3:1 með tveimur mörkum á síðustu tíu mínútum leiksins. Panama mætir sigurvegaranum úr D-riðli en þar leiðir Kólumbía, tveimur stigum á undan Brasilíu, en þjóðirnar mætast í lokaleik riðilsins á miðnætti í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert