Jovetic byrjar ekki gegn Íslandi í kvöld

Stevan Jovetic lék áður með Manchester City.
Stevan Jovetic lék áður með Manchester City. AFP

Stevan Jovetic, þekktasti knattspyrnumaður Svartfjallalands og fyrirliði liðsins um árabil, verður ekki í byrjunarliðinu gegn Íslandi á Laugardalsvellinum í kvöld.

Robert Prosinecki, landsliðsþjálfari Svartfjallalands, sagði við svartfellska fréttamiðilinn Vijesti að Jovetic væri ekki tilbúinn til að spila meira en 30 mínútur, enda er hann án félags og hefur ekki spilað síðan hann fór frá Olympiacos í Grikklandi í vor.

„Stevan er í vandræðum með hnéskelina á sér og við þurfum að fara vel með hann því hann hefur ekki spilað síðan við mættum Georgíu í vor. Við erum með áætlun fyrir Stevan, hann getur spilað í hálftíma, og við verðum að hugsa til þess að við mætum Wales eftir þrjá daga," sagði Prosinecki.

„Það þarf ekki að segja mikið um hversu mikilvægur hann er okkur en við geymum hann sem mest fyrir Walesleikinn því hann hefur ekki spilað lengi og er ekki í sama takti og aðrir leikmenn liðsins," sagði Prosinecki.

Jovetic er markahæsti leikmaðurinn í sögu landsliðs Svartfjallalands og sá næstleikjahæsti en hann er 34 ára gamall og lék m.a. með Manchester City, Inter Mílanó og Herthu Berlín.

Þar með eru tveir þekktustu knattspyrnumenn Svartfjallalands ekki í byrjunarliðinu í kvöld því Stefan Savic, fyrrverandi leikmaður Atlético Madrid, er ekki með í leiknum vegna meiðsla þó hann sé í hópnum fyrir leikina tvo.

Leikur Íslands og Svartfjallalands hefst klukkan 18.45 á Laugardalsvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert