Svarar landsliðsþjálfaranum fullum hálsi

Steven Bergwijn spilar ekki aftur fyrir Holland, að minnsta kosti …
Steven Bergwijn spilar ekki aftur fyrir Holland, að minnsta kosti ekki með Ronald Koeman sem þjálfara. AFP/Javier Soriano

Hollenski knattspyrnumaðurinn Steven Bergwijn er ekki ánægður með ummæli landsliðsþjálfarans Ronalds Koemans um að Bergwijn komi ekki lengur til greina í landsliðið eftir að hann skipti frá Ajax til Al-Ittihad í Sádi-Arabíu.

Koeman sagði Bergwijn, sem er 26 ára gamall, greinilega ekki hafa neinn metnað og hafi ákveðið að elta peningana til Sádi-Arabíu. Því yrði hann ekki valinn í landsliðið. Las Bergwijn þessi ummæli í fjölmiðlum eins og aðrir.

„Þetta er mjög óheppilegt. Ef hann væri skuldbundinn starfi sínu sem landsliðsþjálfari hefði hann hringt í mig fyrst. Þetta er of auðvelt og þessi hegðun hans veldur mér vonbrigðum.

Svona kemur maður ekki fram við leikmenn sína. Ef hann heldur áfram á þessari braut mun hann glata trúverðugleika sínum,“ sagði Bergwijn í samtali við De Telegraaf.

Ég er hættur

Kvaðst hann ekki vilja spila fyrir Koeman framar.

„Mér hefur alltaf þótt það heiður að spila fyrir landsliðið en ég vil ekki gera það undir stjórn þessa þjálfara.

Ég vil ekki gera það lengur hjá einhverjum sem gerir viljandi lítið úr mér með þessum hætti í fjölmiðlum, ég er hættur,“ bætti Bergwijn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert