Danir kjöldrógu Tékka í riðli Íslands

Róbert Orri Þorkelsson og Mathias Kvistgaarden, sem skoraði eitt mark …
Róbert Orri Þorkelsson og Mathias Kvistgaarden, sem skoraði eitt mark í dag, eigast við í leik Íslands og Danmerkur á föstudag. Eyþór Árnason

U21-árs lið Danmerkur vann öruggan heimasigur á Tékklandi, 5:0, þegar liðin áttust við í I-riðli undankeppni EM 2025, riðli Íslands, í dag.

Danir halda þar með toppsætinu í riðlinum en eru nú með 14 stig, þremur stigum meira en Wales í öðru sæti og fimm stigum meira en Ísland í því þriðja. Tékkland er áfram í fjórða sæti með átta stig.

Ísland og Wales eigast nú við á Víkingsvelli þar sem staðan er 0:1, Wales í vil.

William Böving kom Dönum í forystu eftir tæplega hálftíma leik og Mika Biereth tvöfaldaði forystuna í upphafi síðari hálfleiks.

Stuttu síðar, á 54. mínútu, bætti Oliver Sörensen við þriðja markinu með marki úr vítaspyrnu.

Eftir rúmlega klukkutíma leik kom svo fjórða markið. Það skoraði Thomas Kristensen.

Þremur mínútum fyrir leikslok skoraði Mathias Kvistgaarden svo fimmta markið og fimm marka sigur því niðurstaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert