Skandall hjá Svíum

Svíar fagna marki Viktors Gyökeres gegn Eistum í gær.
Svíar fagna marki Viktors Gyökeres gegn Eistum í gær. AFP/Jonathan Nackstrand

Sænski miðjumaðurinn Hugo Larsson yfirgaf landsliðið á sunnudaginn vegna meiðsla en í dag sást myndband af leikmanninum í fullu fjöri á æfingu hjá félagsliði sínu Frankfurt. Spjótin beinast að Jon Dahl Tomasson, þjálfara Svía.

Þýska blaðið Bild hefur eftir starfsmönnum Eintracht Frankfurt að innan félagsins sé óánægja með að Svíar hafi sagt leikmanninn vera meiddan þar sem hann sé full frískur að mati þýska liðsins. 

Sögur hafa borist í sænska fjölmiðla af meintu ósætti milli Larsson og Tomasson en þjálfarinn gagnrýndi leikmanninn opinberlega fyrir að spila boltanum ekki nógu oft aftur fyrir varnir andstæðinga. Larsson sagði í viðtölum að hann hefði viljað að þjálfarinn hefði haldið gagnrýninni innan hópsins og lýsti yfir óánægju sinni með að hafa setið á bekknum í leik Svía gegn Aserbaídsjan.

Jon Dahl Tomasson
Jon Dahl Tomasson AFP/Jonathan Nackstrand

Nýjustu heimildir sænskra fjölmiðla segja að leikmaðurinn og þjálfarinn hafi fundað á laugardag þar sem Tomasson bað Larsson um að yfirgefa landsliðið og opinbera skýringin var sú að leikmaðurinn væri meiddur.

Larsson, sem er tvítugur að aldri, er eins helsta vonarstjarna Svía og málið er hið óþægilegasta fyrir sænska knattspyrnusambandið og Jon Dahl Tomasson enda bendir allt til þess að þeir hafi verið gripnir við að segja ósatt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert