Fer vel af stað í Belgíu

Atli Barkarson leikur með Zulte-Waregem í Belgíu.
Atli Barkarson leikur með Zulte-Waregem í Belgíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bakvörðurinn Atli Barkarson er í úrvalsliði vikunnar í belgísku B-deildinni í knattspyrnu en þar hefur hann farið vel af stað með nýju liði, Zulte-Waregem.

Atli skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið um helgina þegar það sigraði Eupen, 3:1. Þetta var hans þriðji leikur eftir að hann var keyptur frá Sönderjyske í Danmörku í ágúst en þar hafði Húsvíkingurinn spilað fjóra fyrstu leiki liðsins á tímabilinu í dönsku úrvalsdeildinni.

Atli er 23 ára gamall og lék fyrst 15 ára með meistaraflokki Völsungs, var í röðum Norwich á Englandi á árunum 2017 til 2019, spilaði nokkra leiki með Fredrikstad í Noregi en var síðan í liði Víkings árin 2020 og 2021. Hann varð tvöfaldur meistari með liðinu seinna árið en fór þaðan til Sönderjyske.

Zulte-Waregem er með sjö stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar í belgísku B-deildinni og er í fimmta sæti. Liðið endaði í fimmta sæti í fyrra eftir að hafa fallið úr A-deildinni vorið 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert