Lykilmaður úr leik í nokkrar vikur

Dani Olmo er meiddur í læri.
Dani Olmo er meiddur í læri. AFP/Manaure Quintero

Dani Olmo, spænski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, verður ekki með Barcelona næstu vikurnar.

Hann meiddist í sigri Barcelona á Girona á útivelli, 4:1, í spænsku 1. deildinni í gær, eftir að hafa skorað þriðja mark liðsins. Það var hans þriðja mark í þremur leikjum á tímabilinu.

Olmo tognaði í læri og talið er að hann verði frá keppni í að minnsta kosti fjórar til fimm vikur.

Olmo var í Evrópumeistaraliði Spánverja í sumar og skoraði þar þrjú mörk, gegn Georgíu, Þýskalandi og Frakklandi, en hann hefur skorað 11 mörk í 40 landsleikjum fyrir Spán.

Barcelona hefur byrjað tímabilið frábærlega og unnið fimm fyrstu leiki sína í 1. deildinni. Þar er liðið með 15 stig, fjórum meira en næstu lið sem eru Atlético Madrid, Real Madrid og Villarreal.

Auk leikja í deildinni missir Olmo að minnsta kosti af fyrstu tveimur leikjum Barcelona í Meistaradeildinni, gegn Mónakó á fimmtudaginn og gegn Young Boys 1. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert