Byrjaði að sakna Kaupmannahafnar eftir viku

Orri Steinn Óskarsson saknar Kaupmannahafnar nú þegar.
Orri Steinn Óskarsson saknar Kaupmannahafnar nú þegar. Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Orri Steinn Óskarsson ræddi við Tipsbladet í Danmörku um félagaskiptin sín til Real Sociedad á Spáni frá FC Kaupmannahöfn í dönsku höfuðborginni.

Orri er einn dýrasti leikmaðurinn sem hefur verið seldur frá Danmörku, en Sociedad greiddi um 20 milljónir evra fyrir framherjann.

Hann skoraði tvö fyrstu mörkin sín fyrir Sociedad á laugardag er liðið vann Valencia, 3:0.

„Ég er glaður að FCK fékk góðan pening fyrir mig. Félagið átti það skilið. Félagið er ótrúlega gott að þróa unga leikmenn og unglingastarfið er æðislegt. Það mun pottþétt halda áfram þannig og fljótlega verður einhver seldur á enn meiri pening,“ sagði Orri.

Hann kunni afar vel við sig í Kaupmannahöfn og var ekki lengi að byrja að sakna hennar.

„Ég var búinn að vera í viku í San Sebastian þegar ég ákvað að ég myndi spila aftur fyrir FCK. Ég byrjaði að sakna borgarinnar eftir viku. Þegar ég er búinn að gera vel á meginlandinu er planið að koma aftur,“ sagði landsliðsmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert