Landsliðskonan gefur skít í yfirmanninn

Guðrún Arnardóttir og stöllur í Rosengård eru ekki sáttar.
Guðrún Arnardóttir og stöllur í Rosengård eru ekki sáttar. Kristinn Magnússon

Guðrún Arnardóttir og samherjar hennar hjá sænska knattspyrnuliðinu Rosengård eru ekki sáttar við Roger Palmgren, yfirmann knattspyrnumála hjá félaginu.

Palmgren montaði sig af gengi Rosengård-liðsins í hlaðvarpi í vikunni og gerði tilraun til að eigna sér heiðurinn af velgengninni.

Rosengård hefur leikið 21 leik í sænsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og unnið þá alla. Þarf liðið því aðeins einn sigur til viðbótar til að tryggja sér titilinn. Guðrún er í lykilhlutverki hjá liðinu, sem hefur aðeins fengið á sig fimm mörk.

Caroline Seger liðsfélagi Guðrúnar hraunaði yfir Palmgren á Instagram. „Að fólk skuli trúa honum þegar hann reynir að eigna sér heiðurinn að einhverju sem hann á ENGAN þátt í,“ skrifaði hún og bætti við kúkabroskalli.

Guðrún og fleiri samherjar deildu færslunni og eru leikmenn augljóslega ekki sáttir við ummælin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert