Spænski snillingurinn leggur skóna á hilluna

Andrés Iniesta lék lengst af með Barcelona þar sem hann …
Andrés Iniesta lék lengst af með Barcelona þar sem hann átti mögnuðu gengi að fagna. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Andrés Iniesta hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir afskaplega farsælan feril.

Iniesta, sem er fertugur, mun tilkynna formlega um að hann sé hættur þann 8. október næstkomandi að því er spænska íþróttablaðið Relevo greinir frá.

Spænski töframaðurinn lék síðast með Emirates Club í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eftir fimm ár með Vissel Kobe í Japan þar á undan.

Lengst af lék hann með Barcelona, á árunum 2002 til 2018, og vann þar allt sem hægt er að vinna. Vann Iniesta Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum, spænsku deildina níu sinnum og spænska konungsbikarinn sex sinnum auk þess að verða heimsmeistari félagsliða þrívegis.

Þá skoraði hann sigurmarkið á HM 2010 þegar Spánn vann Holland 1:0 í úrslitaleik og varð auk þess Evrópumeistari með liðinu árin 2008 og 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert