Átta leikja bann fyrir bit

Milutin Osmajic í leik með svartfellska landsliðinu.
Milutin Osmajic í leik með svartfellska landsliðinu. Ljósmynd/Preston

Knattspyrnumaðurinn Milutin Osmajic, leikmaður Preston North End í ensku B-deildinni, hefur verið úrskurðaður í átta leikja bann fyrir að hafa bitið Owen Beck, leikmann Blackburn Rovers, í leik liðanna í deildinni í síðasta mánuði.

Osmajic, sem er 25 ára landsliðsmaður Svartfjallalands, viðurkenndi að hafa bitið Beck. Auk leikbannsins hefur hann verið sektaður um 15.000 pund, 2,7 milljónir íslenskra króna.

Undir lok leiksins í Preston fékk Beck rautt spjald fyrir að sparka í Duane Holmes, leikmann Preston. Osmajic brást við því með því að bíta Beck en slapp þrátt fyrir það við refsingu í leiknum sjálfum.

Svartfellingurinn getur næst spilað fyrir Preston laugardaginn 23. nóvember þegar liðið mætir Derby County.

Stefán Teitur Þórðarson leikur með Preston og Arnór Sigurðsson með Blackburn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert