Félagaskiptareglur FIFA brjóta gegn evrópskum lögum

Lassana Diarra í leik með París SG árið 2018.
Lassana Diarra í leik með París SG árið 2018. AFP/Franck Fife

Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað að sumar félagaskiptareglur Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, brjóti gegn reglum Evrópusambandsins um frjálsar ferðir leikmanna og samkeppni milli félaga.

Breska ríkisútvarpið greinir frá. Málið snýr að því að Lassana Diarra, fyrrverandi knattspyrnumaður sem lék meðal annars með Real Madríd, Chelsea, Arsenal og PSG, hefur átt í langvarandi lagalegri baráttu við FIFA, sem samþykkti ekki fyrirhuguð félagaskipti hans til Charleroi í Belgíu árið 2015.

Lögmannsteymi Diarra færði rök fyrir því að núverandi félagaskiptakerfi FIFA fari gegn reglum ESB og féllst Evrópudómstóllinn á þær skýringar.

Markmið að takmarka og koma í veg fyrir

Í dómsúrskurði segir meðal annars:

„Reglur FIFA hindra frjálsar ferðir atvinnumanna í knattspyrnu sem leitast eftir því að þróa feril sinn áfram með því að hefja störf hjá nýju félagi.

Reglurnar hafa það sem markmið að takmarka, og jafnvel koma í veg fyrir, samkeppni yfir landamæri.“

Dómstóllinn úrskurðaði að FIFA ætti ekki að vera unnt að nota alþjóðlegt félagaskiptakerfi til þess að koma í veg fyrir að leikmenn flytji og starfi þar sem þeir vilja. Því þarf FIFA að breyta hluta félagaskiptareglna sinna til þess að þær geti talist löglegar innan ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert