Fordæma ákvörðun Nígeríu

Leikmenn Líbíu fagna marki í landsleik í síðasta mánuði.
Leikmenn Líbíu fagna marki í landsleik í síðasta mánuði. AFP/Issouf Sanogo

Knattspyrnusamband Líbíu hefur fordæmt ákvörðun Knattspyrnusambands Nígeríu um að spila ekki fyrirhugaðan leik þjóðanna í undankeppni Afríkukeppni karla í Líbíu í kvöld.

Nígeríski hópurinn var strand í um 18 klukkustundir á yfirgefnum flugvelli í Líbíu í gær eftir að lendingarleyfi á öðrum alþjóðaflugvelli var dregið til baka. Flogið var með hópinn aftur heim til Nígeríu í kjölfar mikillar óvissu.

Leikmenn ákváðu að láta ekki bjóða sér slíka meðferð og ákváðu í samráði við Knattspyrnusamband Nígeríu að spila ekki leikinn.

Í yfirlýsingu frá Knattspyrnusambandi Líbíu segir að sambandið fordæmi skrefin sem Knattspyrnusamband Nígeríu hafi tekið er ákveðið var að neita að spila leikinn. Líbíska sambandið hyggst þá taka allar nauðsynlegar lagalegar ráðstafanir til þess að vernda hagsmuni liðs síns.

Líbía kvartaði undan slæmri meðferð

Nígeríska sambandið mun leggja fram formlega kvörtun við Knattspyrnusamband Afríku vegna þess sem það kallar „óhugnanlegar aðstæður.“

Á dögunum kvartaði Knattspyrnusamband Líbíu undan meðferð leikmanna og starfsfólks síns þegar karlaliðið kom til Nígeríu í síðustu viku til að spila fyrri leik liðanna í undankeppninni.

Flugvél þeirra lenti, líkt og í tilfelli nígeríska liðsins, langt frá leikvanginum sem átti að spila á og leikmennirnir lentu í ítrekuðum seinkunum.

Sá leikur fór hins vegar fram og lauk með 1:0-sigri Nígeríu, sem er með sjö stig á toppi D-riðils en Líbía er með eitt stig á botninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert