Norska knattspyrnustjarnan Erling Haaland baðst afsökunar á samfélagsmiðlum eftir frammistöðu norska liðsins gegn Austurríki í Þjóðadeildinni á sunnudaginn.
Norska liðið fékk stóran skell á útivelli og tapaði 5:1. Haaland var fyrirliði norska liðsins í leiknum, en þrátt fyrir það strunsaði hann framhjá norskum fjölmiðla mönnum eftir leik og gaf ekki kost á sér í viðtöl.
„Fyrirgefið öll. Þetta var of lélegt af minni hálfu. Við tökum öll sex stigin í nóvember,“ skrifaði hann á Instagram.
Haaland varð markahæsti leikmaðurinn í sögu norska liðsins er hann skoraði tvö mörk í stórsigri á Slóveníu, 3:0, á fimmtudagskvöld. Hann náði ekki að fylgja því eftir með marki í Austurríki.