Komnir heim og spila ekki

​William Troost-Ekong.
​William Troost-Ekong. AFP/Issouf Sanogo

Nígeríska karlalandsliðið í knattspyrnu er komið aftur heim til Nígeríu eftir að hafa lent í ógöngum við komu til Líbíu þar sem liðið átti að mæta heimamönnum í undankeppni Afríkukeppninnar í kvöld.

Ekkert verður af leiknum þar sem nígeríski hópurinn mátti dúsa á yfirgefnum flugvelli í Líbíu í um 18 klukkustundir eftir að lendingarleyfi í Benghazi var skyndilega dregið til baka af stjórnvöldum.

Enn samrýmdari en áður

William Troost-Ekong, fyrirliði Nígeríu, greindi frá því á X-aðgangi sínum í gær að ekki kæmi til greina að spila leikinn og að unnið væri að því að koma hópnum heim til Nígeríu. Í gærkvöldi færði hann svo fréttir af því að hópurinn væri kominn aftur heim, heilu og höldnu.

„Ég er stoltur af þessu liði, það er ekki hægt að brjóta niður nígeríska andann. Reynið eins og þið getið, það er okkur í blóð borið að yfirstíga hindranir.

Ég hef séð ýmislegt á þessum tíu árum með þessum hópi en ekkert á við þetta, þetta var reynsla sem gerði okkur enn samrýmdari en áður,“ skrifaði Troost-Ekong í gærkvöldi.

Ekki liggur fyrir hvað Knattspyrnusamband Afríku gerir í málinu. Nokkrir leikmenn Nígeríu hafa tjáð sig á X og eru þar sammála um að þeim sé sama þó Líbía endi á því að fá stigin þrjú fyrir leikinn sem fer ekki fram í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert