Saka FIFA um að misnota vald sitt

AFP/Ozan Kose

Samtök evrópskra knattspyrnudeilda hafa ásamt evrópskum væng leikmannasamtakanna Fifpro lagt fram formlega kvörtun til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna þess sem þau telja yfirgang og valdníðslu Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.

Kvörtunin snýr að leikjaniðurröðun en samtökin tvö telja FIFA hafa misnotað vald sitt og brotið gegn evrópskum samkeppnislögum þegar kemur að leikjadagskrá.

Alls koma 40 evrópskar deildir að kvörtuninni, þar á meðal enska úrvalsdeildin og spænska 1. deildin.

Með fleiri landsleikjum, þar á meðal stækkuðu heimsmeistaramóti landsliða, ásamt stækkuðu heimsmeistaramóti félagsliða hafa samtökin áhyggjur af því að leikmenn muni ekki fá nægilega hvíld. HM félagsliða fer fram með nýju sniði sumarið 2025 og HM landsliða sumarið 2026.

Samtök atvinnumanna á Englandi hafa í yfirlýsingu sagt knattspyrnudagatalið vera komið að þolmörkum, það sé ofhlaðið og ómögulegt í framkvæmd.

Leikmannasamtökin Fifpro hafa þá kvartað undan því að FIFA hugsi einungis um eigin keppnir og sína viðskiptahagsmuni, láti farast fyrir að huga að skyldum sínum sem felst í að vera stjórnvald og skaði viðskiptahagsmuni hinna ýmsu deilda og velferð leikmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert