Þriðja Maldini-kynslóðin lék fyrir Ítalíu

Daniel Maldini í leiknum í gærkvöldi.
Daniel Maldini í leiknum í gærkvöldi. AFP/Tiziana Fabi

Knattspyrnumaðurinn Daniel Maldini, sóknartengiliður Monza, lék í gær sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ítalíu og fetaði þar með í fótspor föður síns og afa.

Er þetta í fyrsta sinn í sögu ítalskrar knattspyrnu sem þrjár kynslóðir; afi, faðir og sonur leika fyrir A-landsliðið.

Maldini, sem er 23 ára gamall, kom inn á sem varamaður á 74. mínútu í 4:1-sigri Ítalíu á Ísrael í Udine í Þjóðadeild Evrópu í gærkvöldi.

Faðir hans Paolo er goðsögn í ítalskri knattspyrnu sem lék 126 A-landsleiki, vann Meistaradeild Evrópu fimm sinnum með AC Milan og ítölsku A-deildina sjö sinnum.

Afi Daniels, Cesare, lék þá 14 A-landsleiki fyrir hönd Ítalíu og vann ítölsku deildina fjórum sinnum og Meistaradeildina einu sinni með AC Milan.

Daniel ólst upp hjá AC Milan þar sem faðir hans og afi eru goðsagnir en skipti alfarið til Monza í sumar eftir gott gengi með liðinu sem lánsmaður á síðari hluta síðasta tímabils.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert