Lygileg innkoma Messis í sögulegum sigri

Lionel Messi fagnar.
Lionel Messi fagnar. AFP/Carmen Mandato

Argentínski knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi kom vægast sagt inn á með látum í sigri Inter Miami á New England Revolution, 6:2, í Miami í nótt. 

Með sigrinum sló Inter Miami stigametið í hefðbundinni deildarkeppni Bandaríkjanna en þetta var síðast leikurinn fyrir úrslitakeppnina. Inter Miami endaði með 74 stig en mótherjar þeirra í nótt áttu stigametið áður með 73. 

Í leiðinni tryggði Inter Miami sig á heimsmeistaramót félagsliða næsta sumar. 

Lentu 2:0-undir

Messi var ekki í byrjunarliði Inter Miami en liðið lenti 2:0-undir á 34. mínútu. 

Luis Suárez sá þó til þess að skora tvö mörk og jafna metin fyrir hálfleik, 2:2. 

Messi om inn á 58. mínútu og 20 sekúndum síðar átti hann snilldarsendingu á Jordi Alba sem lagði upp mark Benjamin Vremaschi, 3:2. 

Eftir það var komið að Messi sem skoraði næstu þrjú mörk Miami-liðsins, en Luis Suárez lagði upp tvö þeirra. 

Dagur endaði í fjórða sæti

Dagur Dan Þórhallsson og liðsfélagar í Orlando City enduðu í fjórða sæti Austurdeildarinnar þrátt fyrir tap fyrir Atlanta United, 2:1, á heimavelli í nótt. 

Dagur var að vanda í byrjunarliði Orlando City en fór af velli þegar lítið var eftir. 

Nökkvi Þeyr Þórisson og félagar í St. Louis City verða ekki með í úrslitakeppninni en liðið endaði í 12. sæti Vesturdeildarinnar. 

St. Louis City tapaði fyrir Minnesota United, 4:1, í nótt. Nökkvi kom inn á 71. mínútu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert