Chelsea lék sér að Íslendingaliðinu

Chelsea-menn fagna sigrinum.
Chelsea-menn fagna sigrinum. AFP/Angelos Tzortzinis

Chelsea gerði góða ferð til Aþenu og sigraði gríska liðið Panathinaikos, 4:1, í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla í dag. 

Chelsea er komið með sex stig eftir fyrstu tvo leikina og er á toppi deildarkeppninnar. Panathinaikos er með neðstu liðum með eitt stig. 

Joao Félix skoraði tvö mörk fyrir Chelsea en hin mörkin skoruðu Christopher Nkunku og Mykhailo Mudryk en hann lagði upp bæði mörk Félix. 

Mark Panathinaikos skoraði Facundo Pellistri en landsliðsmennirnir Sverrir Ingi Ingason og Hörður Björgvin Magnússon spiluðu ekki, sá síðarnefndi er meiddur. 

Gott gengi Íslendingaliða

Andri Lucas Guðjohnsen lék allan leikinn í heimasigri Gent á Molde, 2:1. Gent hefur unnið einn leik og tapað einum. 

Þá unnu liðsfélagar Alberts Guðmundssonar í Fiorentina útisigur á St. Gallen, 4:2. 

Fiorentina er með fullt hús eftir tvo leiki en Albert er meiddur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka