Spænska landsliðskonan Aitana Bonmatí bar sigur úr býtum í baráttunni um Gullboltann, Ballon d’Or, á verðlaunahátíðinni í París í kvöld.
Bonmatí vann verðlaunin einnig í fyrra. Hún hefur orðið heimsmeistari með Spánverjum og Evrópumeistari með Barcelona í tvígang á undanförnum 18 mánuðum og er í lykilhlutverki hjá báðum liðum.
Hún fetar í fótspor Alexiu Putellas sem vann Gullboltann einnig í tvö ár í röð, en þær eru samherjar hjá Barcelona og spænska landsliðinu.
Caroline Graham Hansen varð í öðru sæti og Salma Paralluelo í þriðja sæti, en þær leika allar með Barcelona. Paralluelo er spænsk eins og Bonmatí en Hansen er norsk.
Þær bandarísku Sophia Smith, Lindsey Horan og Mallory Swanson urðu í 4.-6. sæti.
Glódís Perla Viggósdóttir hafnaði í 22. sæti af þeim 30 konum sem til greina komu í kjörinu, eins og greint var frá fyrr í kvöld.